Bókarýni: How Eskimos Keep Their Babies Warm. Mei-Ling Hopgood.

Nú hef ég lesið nokkrar foreldrabækur og langar að segja ykkur frá þeim. Einni í einu til að gera það yfirstíganlegra og einfaldara.
Ég ætla að byrja á bókinni How Eskimos Keep Their Babies Warm af því að hún er í pínulitlu uppáhaldi hjá mér.
Höfundur bókarinnar, Mei-Ling Hopgood er bandarísk, ætleidd frá Kína. Hún er blaðamaður, hefur ferðast mikið um heiminn og hefur myndað sterk tengsl við upprunaland sitt. Þegar hún eignaðist dóttur sína rifjuðust upp fyrir henni hinir ýmsu siðir sem tengjast barneignum og uppeldi sem hún hafði orðið vitni að á ferðalögum sínum. Hún bar þá saman við það sem hún þekkti vel frá Bandaríkjunum og Kína og úr varð þessi áhugaverði samanburður.

Í bókinni eru 11 kaflar. Hver þeirra fjallar um eitt atriði og oftast einblínt á menningu og siði í einu landi í einu. Sem dæmi má nefna, mataræði barna í Frakklandi, svefnvenjur á Spáni og bleiuleysi í Kína.
Hún segir frá sinni eigin reynslu (og tilraunum) með dóttur sína á einlægan og mannlegan hátt. Einnig kannar hún sögu, mannfræði og vísindi tengt hverju málefni svo bókin er mjög fróðleg.

Þegar ég les um allar þessar mismunandi leiðir til að hugsa um börn í hinum ýmsu samfélögum get ég ekki annað en hugsað: Auðvitað, okkar leið er ekkert sú eina rétta! Það er bara svona sem við erum vön að gera þetta. Kannski er miklu sniðugara að gera eins og Frakkarnir/Spánverjarnir/Kínverjarnir. Ýmislegt hvatti mig til að endurskoða hvernig ég hugsa um hlutina og prófa aðrar nálganir.

Þessi bók er skemmtilegasta foreldrabók sem ég hef lesið.


Ef þið hafið áhuga á að lesa hana fæst hún á amazon.com. Þannig er hægt að lesa í kindle eða á snjallsíma/spjaldtölvu eða fartölvu með því að sækja kindle forrit frítt.

Lykillinn að farsælli brjóstagjöf

Kæra ólétta vinkona.
Á meðgöngunni eru milljón hlutir sem veltast í höfði þér varðandi barnið og allt sem því tengist. Eitt af þeim er örugglega brjóstagjöf. Ef þú ert að lesa þetta ertu að öllum líkindum íslensk og munt því líklega vilja hafa barn þitt á brjósti þar sem hlutfall kvenna sem byrja brjóstagjöf er í kringum 99% á Íslandi *klapp á bakið íslenskar konur*. Ég vil aðeins deila með þér þeim atriðum sem eru almennt talin stuðla að farsælli brjóstagjöf og reyndist mér vel.

Númer eitt: Þekking

Að vita við hverju er að búast tel ég vera gríðarlega mikilvægt. Bíómyndarhugmyndin af brjóstagjöf þar sem konan tekur barnið nýfætt og heldur því í fangi sér meðan það gúlpar ofan í sig brjóstamjólk segir ekki alveg alla söguna. Því meira sem þú veist um eðlilegan framgang brjóstagjafar og hvar hjálp er að finna, þeim mun líklegra er að ykkur gangi vel. Ég fór á námskeið hjá Björkinni sem heitir Brjóstagjöf og umönnun nýbura. Ég er viss um að þar var grunnurinn lagður að þeirri góðu brjóstagjöf sem við Esjar höfum notið. 
Hér er bæklingur heilsugæslunnar um brjóstagjöf með fullt af góðum upplýsingum.

Númer tvö: Hugarfar

Eitt af því sem ég tók með mér heim af námskeiðinu var: Hugarfar skiptir öllu máli. Vera jákvæð og bjartsýn. Hugsa bara allan daginn: 
Þetta mun ganga vel, ég er með fullt af mjólk, við getum þetta 

Númer þrjú: Aðstoð

Ef það gengur illa eða þú ert ekki viss um að þið séuð að gera rétt  - fáðu aðstoð. Ég hringdi bjöllunni í hvert einasta skipti sem ég gaf Esjari á Hreiðrinu og bað ljósmóður að fylgjast með og leiðbeina. Ég get ekki sagt að ég hafi alltaf fengið sömu leiðbeiningarnar en þó hjálpaði heilmikið að fá þær inn og heyra hvað þær höfðu að segja. Við vorum síðan svo "heppin" að Esjar fékk gulu og við lögðumst inn í tvær nætur þegar hann var þriggja daga gamall. Þá tók á móti okkur ljósmóðir sem var brjóstagjafaráðgjafi og hún tók okkur í gegn og lagaði það sem upp á vantaði.
Brjóstagjafaráðgjafar eru starfandi á sumum heilsugæslum og svo veitir Ingibjörg ráðgjöf á einkastofu sinni í Lygnu
Komdu í hópinn Stuðningskonur við brjóstagjöf á facebook. Þar er fullt af yndislegum konum sem vilja ekkert meira en að þér gangi vel með brjóstagjöf. 

Númer fjögur: Hvíld og næring

Það er ekki að ástæðulausu að tönglast er á þessu við nýbakaðar mæður. Líkaminn á auðveldast með að framleiða mjólk ef hann fær hvíld, góða næringu og nóg af vatni. Þannig að, hvíldu þig með barninu eins og þú getur, borðaðu hollan mat og drekktu vatn þegar þú ert þyrst.

Númer fimm: Ekkert stress

Lágmarka ætti stress/streitu eins og hægt er. Nú er mismunandi hvað veldur streitu hjá fólki en nokkuð algengt er þetta týpíska daglegar áreiti; þvottur, þrif, tiltekt, krefjandi gestir ;) Mamman á því að fá frið til að liggja með tásur upp í loft og hugsa um mjólk að fossa úr brjóstunum sínum!

Gangi þér vel!



Skrifað í tilefni Brjóstagjafavikunnar á Íslandi, september 2013

Ef ég væri dagmamma...

...myndi ég:
  • hafa á stefnuskrá: tengslauppeldi, frjálsan leik, borða sjálf og náttúra
  • hafa vefmyndavél svo foreldrar gætu fylgst með krílunum sínum úr vinnunni
  • ENGAR skammir, flengingar, hótanir eða refsingar
  • vera með þátttökuaðlögun
  • hafa hvorki sjónvarp né tölvu í þeirra (barnanna) svæði
  • hafa ekkert "ó-ó" á þeirra svæði
  • gera raunhæfar væntingar til tilfinninga þeirra
  • taka blíðlega á skapofsaköstum
  • bera þau í burðarpoka
  • lesa fyrir þau
  • elda hollan og framandi mat fyrir þau
  • syngja með þeim
  • leyfa þeim að leika með hljóðfæri
  • sýna þeim jóga og dans
  • sýna þeim flugur og orma
  • mála þau í framan
  • gera tásu- og handamálverk
  • leyfa þeim að leika með búninga og hatta
  • hafa frekar fá leikföng og skipta þeim út, "rótera"
  • halda áreiti í lágmarki (hávaða og sjónrænu)
  • vera með drullueldhús í garðinum
  • biðja um myndir af fjölskyldum þeirra til að hafa á veggjum
  • bjóða í fjölskyldumorgunmat nokkrum sinnum á ári
  • halda sumarhátíð fyrir fjölskyldur þeirra

Það hlýtur að vera gaman að vera dagforeldri!

Hvað finnst þér að "drauma dagmamma" ætti að gera/hafa?

Er hann ekki "vær og góður"?

Æj þessi spurning. Er ekkert annað hægt að spyrja nýbakað foreldra? Börn "eiga" ekki endilega að vera fullkomlega vær og góð alltaf. Auðvitað er gaman þegar gengur mjög vel. Þegar barn og foreldri smella frábærlega saman og læra fljótt hvort inn á annað. En allt hitt er líka alveg eðlilegt. Hér eru upplýsingar af tveimur glærum frá barnalækninum Sigurði Þorgrímssyni um "Algeng vandamál á fyrsta ári."

Óværð ungbarna

  • Heilbrigð og eðlileg börn gráta
  • Grátur er hluti af eðlilegri hegðun
  • Ung börn gráta af ýmsum ástæðum:
    • vantar athygli
    • eru svöng
    • líður illa
    • finna til
  • Óværð er ein algengasta kvörtun foreldra vegna ungbarna á fyrstu vikum og mánuðum
  • Veldur oft kvíða [hjá foreldrum] og leiðir til óæskilegra breytinga á umönnun barna
  • Leiðir einnig til vafasamra rannsókna sjúkdómsgreininga og meðferða [óhefðbundnar lækningar eins og hómópatía og höfuðbeina- og spjaldhryggjöfnun]
  • Mikill kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið
  • Líkamleg vandamál skýra sennilega innan við 5%.
Þarna slær hann á þá hugmynd að öll börn eigi að vera "vær og góð". Að vera ungbarn er heilmikil og krefjandi vinna og ekki skrýtið að stundum gangi aðeins illa. Foreldrar þurfa líka tíma til að jafna sig á fæðingunni/meðgöngunni og finna sig í nýja ábyrgðarfulla hlutverkinu. Oft leitar fólk þó frekar líkamlegra skýringa þó þær séu eins óalgengar og innan við 5%. Ég vildi að ég myndi oftar heyra fólk segja við nýbakaða foreldra "líður honum ekki bara best hjá mömmu sinni/pabba sínum?" t.d. þegar barn kvartar í fangi ókunnugra heldur en "er maginn að angra hann?".

Síðustu dagarnir fyrir settan dag

"Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 

Ég var sett á þriðjudaginn 8. maí. 
Á mánudeginum fékk ég samdráttahrinu og var ég viss um að nú væri ég að fara af stað. Við bættum í spítalatöskuna það sem upp á vantaði. Ég hringdi upp á Hreiður og lét vita að ég væri líklega að fara af stað og þær sögðu mér að fá mér að borða og koma þegar verkirnir væru orðnir veri og styttra á milli. Ég vildi borða Á næstu grösum en Klapparstígurinn var lokaður vegna framkvæmda. Við enduðum þá á Nings í staðinn. Við vildum ekkert hringja í fjölskylduna fyrr en við værum komin upp á spítala en önnur mamman hringdi svo þá létum við hina vita. Á meðan við sátum og borðuðum orkuríkan kínverskan mat fækkaði samdráttunum og úr varð að við keyrðum aftur heim. Pínu vonsvikin, ég neita því ekki.
Einn dagur í settan dag. "Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 
Á þriðjudag mættum við í 40. vikna skoðun hjá ljósmóður. Ég vonaði innilega að hún myndi gera einhver töfrabrögð og senda okkur upp á fæðingardeild. Skoðunin kom vel út en henni fannst ég ekki nógu "fæðingarleg". Hún sagði að það sæist oft vel á konum. Stundum kemur af þeim sérstök lykt. Kjartan kannaðist ekki við neina sérstaka lykt. Hún sagði að ég myndi líklega eiga á fimmtudegi. Jæja, heim fórum við aftur nú til að googla "ways to induce labor".
Settur dagur. "Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 
Miðvikudagur leið með óþreyjufullu hangsi í tölvunni, kröftugum göngutúr, skoðandi uppskriftir að sterkum mat, raða barnafötum í skúffur og annarri hreiðurgerð. Fékk nokkur skilaboð með: Hvernig gengur? Engir verkir? Ekkert að gerast?
Einn dagur framyfir. "Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 
Það var ekki fyrr en á fimmtudag þegar ég var viss um að barnið kæmi ekki þann daginn að ég hugsaði: "ég þyrfti kannski frekar bara að slappa af." Ég lagðist inn í rúm, horfði á Modern Family og borðaði súkkulaði. Ég var eflaust búin að koma mér fyrir í svaka huggulegri stöðu, með einn kodda undir bumbunni, annan milli læranna, tvo undir höfði og öxlum og ýmislegt annað sem ég hef fundið til að liða vel. 

Svo mikil varð afslöppunin að ég sótti mér ekki vatn sjálf. 
Fimmtudagskvöld, tveir dagar framyfir.
Eftir miðnætti fann ég aukna samdrætti (af hverju var ég ekki farin að sofa!?). Nú grunaði mig að eitthvað gæti farið af stað.
Tveir dagar framyfir. "Núna er þetta að gerast, ég verð að fara að sofa". 
Föstudag, klukkan 5:20 vaknaði ég við verki. Hringdi fljótlega upp í Hreiður þar sem mér var ráðlagt að taka verkjalyf og fara í bað. Sem ég gerði og vildi helst ekkert koma úr baðinu. Eitthvað þurfti ég þó að borða en ekkert var til svo Kjartan skaust í Nóatún að kaupa orkuríkan mat. Eggjahræra, prótínstykki, powerade var það sem ég náði að koma niður að einhverju leyti áður en verkirnir nálguðust að vera óbærilegir. Þá, um níu leytið, keyrðum við upp á spítala. Ekki hefði mátt seinna vera því ég var komin með 7-8 í útvíkkun þegar ljósmóðir skoðaði mig. Kjartan sagði: "var ég bara í Nóatún og þú með 8 í útvíkkun?!"
Innan skamms var ég komin í fæðingarlaug með glaðloft í túbu að vinna í gegnum hríðirnar. Drengur fæddist klukkan 13.25. Fæðingarsaga kemur seinna ;)

Kæra vinkona, ef þú ert á síðustu dögunum fyrir settan dag vil ég segja þér...

...slappaðu af. Það verður nóg að gera næstu daga. Barnið kemur. Fæðingin verður ótrúleg og líklega dásamleg. Slökktu á facebook. Lestu um fyrstu dagana eftir fæðingu. Láttu dekra við þig. Láttu þig dagdreyma með góðri tónlist. Farðu í bað. Drekktu vatn. Talaðu við barnið þitt. Skrifaðu dagbók. Andaðu. 
Gangi þér rosalega vel, þetta verður yndislegt.

Burðargræjur trompa alltaf kerruna


Margir myndu segja að þeir gætu ekki verið án kerru en ég ætla að gerast svo djörf að segja að við gætum það - með burðargræjum. Við höfum verið kerrulaus í rúmlega mánuð núna. Ég hef ekki einu sinni saknað kerrunnar.
Ég man reyndar ekki eftir neinu skipti þar sem ég hef sleppt því að taka kerruna og saknað hennar. Hinsvegar hafa komið nokkur skipti þar sem ég tók kerruna og sá eftir því!
Eitt skiptið var Esjar örugglega fjögurra mánaða og ég fór með hann í Smáralind. Eftir að hafa farið í nokkrar búðir og setið í smástund á kaffihúsi var hann orðinn þreyttur. Ég gaf honum að drekka, skipti á honum og setti hann aftur í kerruna. "Ónei takk mamma - hér vil ég ekki vera! Ég er þreyttur og vil vera hjá þér!" Bíllinn var því miður lagður í hinum endanum svo það var alveg smástund áður en við kæmumst þangað. Sem betur fer var ég með teygjanlega sjalið með mér. Ég náði að binda það í flýti með þreytt, grátandi barn í kerru og áður en ég (og allt kaffihúsið) vissi af hafði hann róast og leið miklu betur þéttvafinn framan á mömmu sinni. Hann sofnaði fljótlega og ég gekk yfir alla Smáralind með tóma kerru .
Annað skiptið var frekar nýlega, áður en ég "lagði" kerrunni, Esjar um það bil tíu mánaða. Ég var ásamt hópi mæðra á leið í útileikfimi í Elliðaárdalnum. Ég hafði hugsað mér að ganga með hann á bakinu og skilja kerruna eftir. Samt hugsaði ég að hann gæti kannski sofnað og þá væri gott að leggja hann niður svo ég tók kerruna með. Það gekk mjög vel að ganga með hann á bakinu og honum fannst þetta skemmtilegt. Við gengum í smástund og stoppuðum svo til að gera nokkrar æfingar, sipp, armbeygjur og slíkt. Ég setti Esjar í grasið á teppi þar sem hann sat og lék sér og borðaði Cheerios. Hin börnin urðu smátt og smátt leið á því að liggja í vögnum/kerrum og bættust í hópinn á grasið. Þar sátu þau og skiptust á nesti og stútkönnum :) Að æfingum loknum fóru öll börn aftur í farartækin sín en Esjar í pokann sinn á bakið á mér. Við gengum svo tilbaka, gerðum hnébeygjur á leiðinni sem Esjari fannst mjög skemmtilegt! Þegar "æfingin" var búin ákváðum ég og tvær aðrar að halda áfram að labba því veðrið var svo gott og yndislegt í dalnum. Ég setti Esjar þá í kerruna með það í huga að hann myndi sofna. Eitthvað misreiknaði ég hann eða honum hefur fundist svo gaman að vera úti því hann sofnaði ekki og var ekki glaður í kerrunni. Við stoppuðum til að borða og hvíla okkur (enda búnar að ganga í næstum tvo tíma). Eftir það vildi Esjar ekki sjá það að vera í kerrunni! Svo ég gekk með hann á bakinu alla leiðina í gegnum Elliðaárdalinn, með tóma kerru.
Þriðja skiptið sem ég man eftir endaði ekki jafn vel. Þá vorum við Kjartan með Esjar í göngu í miðbænum í júní, Esjar bara eins mánaða gamall. Það er leiðinlegt að vera með kerru/vagn í miðbænum útaf fyrir sig. Alltaf þarf að lyfta upp þrep til að komast inn í búðir og halda hurðum opnum. Við ætluðum bara að vera stutt því hvorki ég né Esjar höfðum mikið þol fyrir snatt og stúss. Við gengum niður Laugaveginn en ákváðum aðeins of neðarlega að snúa við og enduðum á því að hlaupa síðasta spölinn með grátandi barn í vagni. Alls ekki skemmtileg reynsla. Ef hann hefði verið í sjali hefði hann líklega ekki verið jafn órólegur og líklega hefði ég getað gefið honum að drekka - í sjalinu. 

Að hvaða leyti eru burðargræjur eru betri en kerrur?

  • Þær komast meira en kerru (þrep, þungar hurðir, grjót, þúfur)
  • Barnið er nálægt þeim sem ber það og líður því oftast betur
  • Þær taka minna pláss í bíl eða ferðatösku
  • Tvær hendur frjálsar
  • Mun þægilegra að fara um í margmenni (hönnunarhátíð í Hörpunni)
Núna fer ég hvergi án þess að hafa burðarpokann okkar með. Þegar við förum til útlanda í sumar tökum við burðargræjurnar með en skiljum kerruna eftir heima.
Við notuðum teygjanlegt sjal til fjögurra mánaða og fengum þá Ergo sem er formaður burðarpoki. Hann hefur verið í stanslausri notkun síðan. Nýlega keypti ég rebozo sem er stutt ofið mexíkóskt sjal sem við erum að æfa okkur á og við bíðum eftir langa ofna sjalinu (5,2 m) sem ruglaðist í pósti í Ameríku.
Esjar í teygjanlegu sjali fjögurra mánaða.

Teygjanleg sjöl eru yndisleg fyrstu mánuðina og fást t.d. á þessum stöðum: Tvö LífHönd í hönd, Móðir Kona Meyja. Frábær sængurgjöf!
Hér eru góðar leiðbeiningar fyrir bindingar á teygjanlegu sjali. 
Þegar börnin þyngjast þarf meiri stuðning til að bera þau og má þá nota formaða burðarpoka, mei tai eða ofin sjöl. Allt þetta og fullt af upplýsingum fást hjá Soffíu hjá Hönd í hönd. Athugið að ekki er mælt með burðargræjum sem leyfa barni að snúa fram (t.d. BabyBjörn).

Það er ekki of seint að byrja að bera barn sem er orðið eins, jafnvel tveggja ára! Formaðir burðarpokar þola u.þ.b. 20 kg og ofin sjöl meira.


Horfa, hinkra og hugsa


Á fyrirlestri hjá Sæunni Kjartansdóttur sálgreini um Tengsl foreldra og barna komu "frekjuköst" til umræðu, þá aðallega barna í kringum 2-4 ára aldur. Foreldrar vilja eðlilega fá ráð við hvernig bregðast megi við slíkum köstum og vil ég benda á grein Rakelar fjölskylduráðgjafa um skapofsaköst. Sæunn spurði hinsvegar hvort foreldrarnir gætu séð einhvern aðdraganda eða orsök fyrir köstunum. Hún sagði svo frá einfaldri leið til að fækka slíkum köstum. Sú aðferð nefnist Horfðu, hinkraðu og hugsaðu (eða á ensku Watch, wait and wonder) og er meðferðarúrræði til að bæta tengsl foreldra og ungra barna. Með bættum tengslum öðlast barn (og foreldri) betri líðan.
Horfðu, hinkraðu og hugsaðu
Eitt foreldri og eitt barn eyða hálftíma saman á þægilegum stað án truflana. Ekkert sjónvarp eða tölva. Barnið fær algerlega að ráða hvað er gert á þessum hálftíma og fær óskipta athygli foreldrisins á meðan. Mamman/pabbinn má ekki gera neitt annað en fylgjast með barninu (ekki prjóna eða lesa). Vera til staðar, andlega og líkamlega. Fylgjast með og læra á barnið sitt. Ef barnið vill leika við mömmu eða pabba þá er það velkomið. Þetta er gert á hverjum degi eða eins oft og mögulegt er. Hægt er að nota þessa tækni frá 6 mánaða aldri (og örugglega fyrr). Tilvalið fyrir börn og foreldra að ná saman eftir heilan dag af fjarveru hvort frá öðru. Sæunn sagði að fjölskyldur sem prófuðu þessa aðferð fundu mikinn mun. Bæði foreldrum og barni líður betur.

Það kemur mér alls ekki á óvart að þetta beri árangur. Reynsla okkar hefur sýnt að þegar við náum ekki að vera  mikið til staðar fyrir Esjar í ákveðinn tíma, kvartar hann meira. Minna má út af bregða og hann "hangir meira í okkur". Þetta eru til dæmis dagar þar sem við þurfum bæði að læra mikið og fáum jafnvel aðstoð við að passa. Eða löng veisla þar sem allir vilja leika við hann eða halda á honum. Þá er það eina sem hann þarf gæðastund með mömmu sinni eða pabba.

Ég ætla reyna að sjá til þess að Esjar fái reglulega, og eins oft og hægt er, ótruflaða samverustund með pabba sínum eða mömmu. 


Eiga ekki allir nokkra hálftíma á viku handa barninu sínu?


Sæunn Kjartansdóttir er höfundur bókarinnar Árin sem enginn man. Flestir sem lesa bókina eru mjög ánægðir að hafa lesið hana og vildu óska þess þeir hefðu lesið hana fyrr - sérstaklega ef þeir eiga eldri börn. Ég byrjaði að lesa hana þegar Esjar var minnir mig tveggja mánaða og hefði ég alveg viljað byrja fyrr. Því vil ég mæla með þessar bók fyrir alla - sérstaklega þá sem eiga von á barni!

Frekja ungra barna


Frekja hefur verið ofarlega í huga mér í dálítinn tíma. Að mínu mati er það alltof algengt að ung börn séu kölluð frek. Að mínu mati geta börn ekki verið frek fyrir þriggja ára aldur. Heili þeirra er ekki fullþroskaður.
Ég ætla að draga upp mynd af atviki sem er ekki sjaldséð í kringum börn á aldri við Esjar, eins árs, og reyna að varpa smá ljósi á tilveru barnanna.
Fjölskyldan er saman inni í stofu. Barn skríður um og skoðar heiminn. Það er orðið anski klárt í því að standa upp og labba með húsgögnum. Sófaborð eru í fullkominni hæð fyrir barn til að styðja sig við og þar leynist oft margt spennandi! Barnið nær að hífa sig upp með borðinu, labba nokkur skref áður en það nær í það allra flottasta og skemmtilegasta - fjarstýringuna! Afinn fylgist með og er ekki lengi að grípa fjarstýringuna þegar hann sér stefna í að litlir fingur nái að skipta um stöð á sjónvarpinu. Barnið hugsar þá eflaust: "Jæja, afi er nú að horfa á fótboltann, ég get ekkert verið að fikta í fjarstýringunni á meðan. Ég leik mér bara við boltann í staðinn". Ónei, allir sem hafa hitt barn á þessum aldri vita að það er ekki svo. Kannski hugsar það eitthvað meira í þessa átt "Gaaaahh hvað ertu að gera afi!? Veistu ekki hvað mér finnst þetta óóótrúlega spennandi, ég ætlaði að smakka, ýta á takkanna, lemja henni í borðið og láta hana detta á gólfið! Ég var rétt að byrja! AAaaa". 

Barnið er í miklu uppnámi yfir þessu og framleiðsla streituhormónsins kortisól hefst.
Barnið bregst við með gráti eða kvarti og grenji. 

En hvað gerist næst? Hér eru þrenn dæmi um viðbrögð:  

  • Afi: "Láttu ekki svona, þú mátt ekki leika með fjarstýringuna. Vertu ekki með þessa frekju, það er nóg af öðru dóti að leika með". Barnið heldur áfram að kvarta og baðar út höndunum í átt að fjarstýringunni. "Nei, þú mátt ekki fá hana... Börn verða nú að læra að leika sér sjálf". Barnið sest niður á gólf í óánægju sinni og heldur áfram að kvarta.
  • Fjarstýringin er tekin úr augnsýn. Ekki líkar barninu það betur - þá er engin von að ná henni aftur - grætur hærra. "Allamalla, ekki þessi læti... Allt í lagi þú mátt fá fjarstýringuna aftur". Barnið er alsælt með útkomuna.
  • "Æjæj ég skil vel að þú viljir leika með þessa fínu fjarstýringu en hún er ekki í boði. Á afi að labba með þig og sýna þér dálítið annað spennandi? Kannski er amma búin að baka og við megum fá að smakka. Komdu, kíkjum inn í eldhús". Barnið er ánægt að fá að koma í fang afa síns og er spennt að sjá hvað hann ætlar að sýna sér. Fjarstýringin gleymist fljótt og barninu líður betur

Hvernig vilt þú bregðast við barninu þínu?

  • Fyrsta barnið kemst ekki í jafnvægi og líklega versnar líðan þess. Það fær enga hjálp frá fullorðnum og framleiðsla streituhormónsins heldur áfram.
  • Annað barnið kemst í jafnvægi en fær ekki mikla hjálp frá fullorðnum til þess. Aðeins fjarstýringuna aftur.
  • Þriðja barnið kemst í gott jafnvægi með hjálp afa síns og hittir mögulega líka ömmu - þvílíkur bónus!
Eftir það sem ég hef lesið um heilaþroska barna finnst mér mikilvægt að fólk átti sig á því að barn á þessum aldri getur ekki með nokkru móti sett hluti í samhengi, áttað sig á aðstæðum og "róað sig sjálft". Barn þarf annan aðila til að gera það fyrir sig. Hvort sem orsök uppnámsins sé svengd, söknuður, sársauki eða vonbrigði yfir bannaðri fjarstýringu. Fái barn ekki góðan stuðning til að vinna úr erfiðum tilfinningum sínum fyrstu þrjú árin mun það líklega eiga erfitt með að vinna úr erfiðum aðstæðum sem fullorðinn einstaklingur. Heilinn fær ekki nægilegan þroska í að takast á við streitu og vinna úr henni á eðlilegan og rökréttan hátt. Ég mæli með bókinni Why love matters eftir Sue Gerhardt vilji fólk kynna sér heilaþroska barna og áhrif þeirra á fullorðinsárin nánar. 
Það er nauðsynlegt að taka mark á "kvarti og grenji" barna því annars læra þau að tjáning þeirra og tilfinningar skipta ekki máli og geta ekki haft áhrif. Aðeins með góðri hjálp frá sínum nánustu við að koma líðan sinni í jafnvægi lærir barnið að takast vel á við hnökra í lífinu. Það er barninu þó heldur ekki gagnlegt að koma í veg fyrir öll vonbrigði enda væri það ógerlegt. Heldur er ekki gott að gefa alltaf eftir, þó svo að þannig forðist maður "erfiðar aðstæður". Barnið lendir þá ekki í því að verða fyrir  vonbrigðum og fær ekki tækifæri til að læra að takast á við þau (með hjálp fullorðinna). Barnið verður mögulega á endanum frekt á þann hátt að mjög erfitt verði að róa það án þess að það fái sínu fram.

Hér eru mín markmið og ráðlegging:

  1. Hafa eins lítið af bönnuðum hlutum og hægt er. Nú erum við að fara að flytja og við ætlum að hafa  heimilið okkar eins og leikskóla - ekkert bannað í hæð sem Esjar og vinir hans ná til. 
  2. Ekki banna hluti af ástæðulausu. Börn hafa svo gaman af því að skoða nýja hluti og um að gera að leyfa þeim það! Esjar er hæstánægður ef hann fær að skoða snyrtidót eins og maskara, varasalvadós, bursta... Hann fær samt ekki naglaklippurnar og plokkarann.
  3. Ekki gefa eftir til að forðast átök. Þú verður að hjálpa barninu að takast á við þau vonbrigði að fá ekki það sem það vill. Dreifðu heldur athyglinni annað eða talaðu/leiktu við barnið.
  4. Taka alltaf mark á kvarti og kveini, sama hver ástæðan er. Barninu líður illa og þarf þína hjálp til að líða betur. Oft getur smá gæðastund og gott knús gert kraftaverk!

Að kaupa eða ekki kaupa


Góður verkfræðingur hannar góða brú. Frábær verkfræðingur spyr sig hvort nauðsynlegt sé að byggja brú - og finnur mögulega aðra leið sem uppfyllir þó allar kröfur notenda.
Þegar foreldrar hafa jafnað sig á fyrstu viðbrögðunum við "jákvæða strikinu" á þungunarprófinu vakna ýmsar spurningar og vangaveltur. Þurfum við stærra hús? Eigum við að breyta skrifstofunni í barnaherbergi? Hvernig vagn eigum við að kaupa... Hvað þurfum við að kaupa!?
  • "Týpíski listinn": Vagga, barnarúm, sér herbergi, barnastól, vagn, kerru, snuð, leikteppi, ömmustól, hoppuróla, göngugrind, leikgrind, ungbarnaróla, baðbali, skiptiborð, óróa, spiladós og örvandi leikföng.
  • "Léttari listinn": Vagn, mögulega skiptiborð. Til viðbótar: Burðarsjal/poka og co-sleeper (ungbarnarúm í  hjónarúm). 

Hvernig er hægt að hafa bara þessa fáu hluti?
Í staðinn fyrir vöggu og barnarúm notuðum við co-sleeper til að byrja með en síðan hefur Esjar sofið í rúminu okkar. Við höfum ekki auka herbergi en þó við hefðum það myndum við ekki nota það sem svefnherbergi fyrir hann. Barn og foreldrar finna til meira öryggis með nálægðinni.
Við settum ekki upp barnarúm fyrr en Esjar var orðinn rúmlega hálfs árs gamall. Þá var hann fyrst farinn að hreyfa sig eitthvað í svefni og vildum við ekki að hann rúllaði úr hjónarúminu. Við prófuðum nokkur kvöld að leggja hann í barnarúmið en hann kom svo upp í til okkar þegar við fórum að sofa eða þegar hann vaknaði. Mér fannst þetta ekkert þægilegt. Mér fannst vesen að þurfa að standa upp og bogra yfir rimlarúminu hálfsofandi til að ná í hann í myrkrinu. 
Flótlega varð rúmið stoppistöð fyrir hreinan þvott á leið í skápa og skúffur. Það nýtist þó vel sem framlenging við rúmið en við höfum það í sömu hæð og okkar og ein hliðin er tekin af. Esjar sefur samt alltaf á dýnunni okkar en það virkar samt aðeins stærra svona, það rúllar allavega enginn út á gólf þeim megin. 
Á tímabili sváfum við reyndar ekki vel öll saman. Ég hafði ekki nægilegt pláss til að sofa og oft  vildi ég ekki færa Esjar vegna áhyggja að hann myndi vakna. Góði verkfræðingurinn myndi þá venja barnið að sofa í sínu eigin rúmi, þó foreldrunum finnist gott að hafa barnið hjá sér. Frábæri verkfræðingurinn myndi ráðleggja kaup á nýju rúmi. Við höfum keypt stærra rúm fyrir okkur síðan hann fæddist og sofum nú öll þægilega í 180 cm breiðu rúmi.
Hér er umfjöllun um öryggisatriði sem hafa ber í huga ef ungbarn á að deila rúmi með foreldrum sínum.
Vagninn notum við daglega (frá um 5 mánaða aldri) fyrir Esjar að sofa í. Flestar íslenskar og líklega skandinavískar fjölskyldur hafa sömu sögu að segja. Börn sofa svo vel úti!
Skiptiborðið reyndist vel fyrstu mánuðina þegar þurfti að skipta ansi ört um bleiur. Þá er fínt að hafa allt á vísum stað. Um leið og börnin fara að hreyfa sig meira verða aðrir staðir hentugri til bleiuskipta. Skiptiborðið er ekki nauðsynlegt en nýttist vel fyrstu mánuðina. 
Í staðinn fyrir kerru er hægt að nota burðarpoka.
Í hvert skipti sem ég fór með Esjar í kerrunni, þá hugsaði ég "nú hefði verið gott að hafa burðarpokann" en aldrei öfugt. Ég notaði pokann alltaf þegar ég tók hann með mér út í búð þegar hann var orðinn of stór fyrir ungbarnasætið en ekki nógu stór fyrir barnasætið í búðarkerrunum. Núna hef ég ekki notað kerruna í viku og hef ekki í huga að taka hana fram aftur. Ég er líka orðin rosalega flink í að bera Esjar á bakinu en þegar börn verða þyngri er mun léttara að bera þau þar er framan á sér. Hann getur séð allt það sama og ég og hallað höfðinu á bakið mitt ef hann vill hvíld.
Við Esjar í göngutúr síðustu helgi

Í staðinn fyrir leikteppi, ömmustól, hoppurólu, göngugrind, leikgrind, ungbarnarólu, óróa, og örvandi leikföng má nota burðarpoka.
Tilgangurinn með öllum þessum græjum er að hafa öruggan stað fyrir barnið svo foreldrar geti sinnt ýmsum verkum og til að veita barninu afþreyingu og örvun. Allt þetta hefur burðarpokinn og meira til! Barnið fær heilmikla afþreyingu af því að spjalla við foreldrana og fylgjast með því sem þau eru að gera. Það þjálfar jafnvægisskyn barnsins að vera í stöðugri hreyfingu með foreldrinu sem og það æfir sig að halda höfði en á jafnframt auðvelt með að hvíla það uppvið bringuna/bakið. 
Flestum foreldrum finnst gott að halda á barninu sínu en enginn getur þó gert það allan daginn án þess að fá vöðvabólgu í axlir og bak. Góði verkfræðingurinn ráðleggur þá að venja barnið við ömmustól eða göngugrind. Foreldrarnir vildu þó gjarnan getað haft barnið nærri sér og frábæri verkfræðingurinn ráðleggur þá kaup á burðarsjali eða poka.
Með nýfætt barn er æðislegt að vera með það í teygjanlegu sjali. Þegar barnið þyngist heldur sjalið ekki nægilega vel og er þá betra að nota annaðhvort burðarpoka eða ofið sjal  sem teygjist ekki. Hægt er að skoða ýmsar burðargræjur hjá Soffíu á hondihond.is
Í staðinn fyrir baðbalann má baða barnið í sturtu eða baði með foreldrinu.
Baðbalann notuðum við tvisvar. Fyrst þegar heimaljósmóðirinn sýndi okkur hvernig á að baða nýfætt barn. Svo þegar við prófuðum að gera eins og hún hafði sýnt gekk það ansi brösulega. Fyrst var vatnið ekki nógu heitt. Svo löguðum við hitann en samt líkaði Esjari þetta ekki sérlega vel. Þá benti ein úr mömmuhópnum á að þau tækju ungann sinn með í sturtu. Við prófuðum þetta og líkaði miklu betur! Esjari leið svo vel í fanginu á mér með hlýtt vatnið streymandi yfir okkur. Þannig fengum við heilmikla húð-við-húð snertingu sem er svo mikilvæg fyrir tengslamyndun og öryggiskennd barnsins. 
Við fórum mjög nálægt því að hafa fylgt týpíska listanum. Fullt af þessu dóti fyllti dýrmætt pláss í íbúðinni okkar. Nú þegar ég lít til baka notuðum við það flest ekki mikið og hefðum auðveldlega getað sleppt því. Börnin stækka svo hratt og það væri synd að hafa þau ekki sem mest hjá manni - áður en þau fara að skríða um allt og skoða heiminn!

Minningabanki


Kannast ekki allir við það að heyra tónlist sem vekur upp minningar og tilfinningarSumarsmellir, jólalög, geisladiskur úr ferðalagi eða vinsælasta tónlistin frá unglingsárunum.
Núna sé ég að þetta er frábær leið til að skrá minningar!
Birna vinkona mín úr maí-mömmuhópnum var með þeim fyrstu í mánuðinum til að eiga. Þegar hún var komin heim með dóttur sína lýsti hún hamingjuástandinu á heimilinu sem svo að þau svifu um á bleiku skýi og með lýsingunni fylgdi lagið "Loving you" - Minnie Ripeton. Þegar hún sagði okkur í hópnum frá þessu var hann enn að mestu leyti bumbuhópur og allar biðu spenntar eftir stóru stundinni. Ég var rúmri viku frá því að eiga. Mér fannst þetta lag svo yndislegt! Ég spilaði það oft dagana á eftir meðan ég beið og lét mig dreyma um litla hnoðrann sem ég fengi von bráðar í hendurnar. Ég hlakkaði mikið til að kyssa pínulitlu iljarnar og að liggja með hann í baði.
Eftir að Esjar kom í heiminn spilaði ég lagið áfram því einhvern tímann heyrði ég að börn ættu að geta þekkt lög úr móðurkviði og fannst það rosa sniðugt - ég hafði samt enga leið til að vita hvort hann kannaðist við það. En lagið passaði líka mjög vel við stemminguna og tilfinningarnar sem voru í gangi fyrstu dagana.
Núna, næstum ári seinna, fæ ég fiðring í magann þegar ég heyri Minnie og fuglanna syngja þetta krúttlega lag. "Sumar í loftinu, lykt af nýfædda syninum, litlar tásur, lítil sæt föt í notkun, krúttleg hljóð, litlar stjórnlausar hreyfingar, veit ekkert hvaða dagur er..."
Með þessu lagi rifja ég upp tilfinningar og upplifanir sem ómögulegt er að geyma á annan hátt. Ég mæli með því að velja sér eitthvað gott lag eða tónlist sem svona minningabanka fyrir þennan einstaka tíma - þessi magafiðrildi eru yndisleg að rifja upp.
Takk aftur Birna fyrir að deila þessu yndislega lagi með okkur!

Ég ætla að endurtaka minningabankann þegar kemur að því að eignast annað barn og þá með annað lag. Ef þú veist um gott "svífandi um á bleiku skýi" lag máttu láta mig vita ;)

Tengslauppeldi 102


Ef þú værir með ungbarnið þitt á eyðieyju og hefðir engar bækur, enga klukku og enga ráðgjafa - hvernig myndirðu hugsa um barnið þitt? Þú myndir líklega nota "móður"innsæið til að leiðbeina þér (innsæið á líka við um feður sem og aðra sem láta sér annt um ungbarn). Þú myndir gera þitt besta til að lesa í tjáningu barnsins og einbeita þér að því að læra hvernig barninu líður vel. 
Allir vilja tryggja barninu sínu hamingju í framtíðinni og gera allt sem þeir telja vera barninu fyrir bestu. Séu foreldrar í góðu andlegu jafnvægi og hafi þeir fengið gott uppeldi kemur gott tengslauppeldi þeim náttúrulega (sjá Tengslauppeldi 101). Þeir eru næmir á tilfinningar barnanna sinna, hugga þau þegar þau gráta, gefa þeim að borða þegar þau eru svöng og njóta þess að vera með þeim og að vera nálægt þeim. Flestir ala því börnin sín upp samkvæmt tengslauppeldi án þess að vita að það hafi eitthvað nafn. Hvað þá samtök, bækur, heimildarmyndir og vísindi á bak við sig líka!
Sem betur fer - og því miður - búa nýbakaðir foreldrar ekki á eyðieyju. Allt um kring eru upplýsingar um hvernig eigi að sjá um ungbörn. Hjúkrunarfræðingar og læknar, bækur og blogg, vinir og fjölskylda veita endalaus ráð um hvernig sé best að gera. Mörg þessara ráða eru góð og gagnleg en einnig eru fjölmörg sem eru úrelt og á röngum rökum reist. Þegar fólk gefur slæm ráð er það ekki viljandi gert til að hafa slæm áhrif, fólk einfaldlega veit ekki betur.
Ég hef fulla trú á því að allir foreldrar geri það sem þeir telji vera þeirra barni fyrir bestu. Því miður þýðir það ekki endilega að þeir geri það sem raunverulega er best fyrir barnið. Sumir hafa einfaldlega rangar upplýsingar og enga góða leið til að vita hvað eru réttar upplýsingar. Ég vil bæta mínum ráðum í flóruna af ráðleggingum:
  • Farðu eftir sannfæringu þinni og hlýddu ekki á ráð sem láta þér eða barninu líða illa. Kannaðu málið, kannski eru til aðrar lausnir sem henta ykkur betur.
  • Viðurkenndu að þú og fólk í kringum þig vitið ekki allt um börn og að þú hafir gott af því að kynna þér ýmislegt um þroska þeirra. (Bækurnar Árin sem enginn man, Sæunn Kjartansdóttir og Why Love Matters, Sue Gerhardt hafa kennt mér heilmikið)
  • Verðu góðum tíma með barninu og lærðu að þekkja það (ekki bara fara í gegnum daginn og "sjá um" barnið)
Því fleiri góðar samverustundir sem foreldri (eða aðrir í fjölskyldunni) eiga með barninu því nánari verða tengslin og auðveldara verður að mæta þörfum barnsins rétt. Með góðri samverustund á ég við tíma þar sem þið gerið eitthvað saman (ekki þú að lesa bók og barnið á leika á gólfinu rétt hjá). Til dæmis að lesa saman, fara í sund, leika eða bara stússa með barnið í burðarpoka. Aðalmálið er nálægðin og samveran! 
Það er ágætis breyting að fylgjast ekki með klukkunni heldur barninu. Ég hef nokkrum sinnum dottið í þá gryfju að leggja Esjar út í vagn að sofa "eftir klukkunni" og enda með því að rölta heillengi með hann glaðvakandi - bara af því að nokkra daga á undan sofnaði hann á þessum tíma! Við erum mannleg, sveigjanleg og mismunandi eftir dögum.
Reynum að fylgja meira okkar eigin straumi og gera hluti sem eru skemmtilegir og láta okkur líða vel - með fólki sem okkur finnst skemmtilegt og lætur okkur líða vel.
Prófum að búa aðeins á okkar eigin eyðieyju!

Hvernig á ég að gefa barninu mínu að borða?

Flestir nýjir foreldrar pæla mikið í því hvað eigi að gefa barninu að borða og hvenær sé rétti tíminn til að byrja. Hvenær má barnið fá hafragraut eða skyr? Verð ég að gefa grænmeti fyrst áður en hún smakkar ávexti? Er banani of stemmandi? Hvaða grautur er bestur?
En fáir pæla í því hvernig sé best að gera það. Hugmyndin sem flestir hafa af ungbörnum er sú að þau séu ófær um að borða sjálf og þau verði að mata með skeið. Þetta er nefnilega ekki alveg rétt. Nokkurra mánaða gömul börn geta haldið vel á ýmsum hlutum svo sem sokkunum sínum, taubleium, snuði og dóti. Það vita allir að þau stinga öllu upp í sig. Af  hverju ættu þau þá ekki að geta set mat upp í sig líka? Þau geta það vel - og hafa gaman af því! Þegar ég var ólétt keypti ég góðan blandara og ætlaði heldur betur að gera mitt eigið barnamauk. Esjar er núna að nálgast eins árs og hefur aldrei fengið mat úr þessum blandara. Þá hafði ég aldrei heyrt um BLW en það hefur reynst okkur rosalega vel.
Baby Led Weaning (BLW) eða Barnið borðar sjálft er aðferð til að kynna mat fyrir ungbörnum þannig að þau sjálf ráða ferðinni. "The baby leads the way." Þegar barn er fært um að sitja upprétt sjálft er það tilbúið til að prófa sig áfram með mat. Til að byrja með kynnist barnið nýjum áferðum og bragði án þess endilega að innbyrða mjög mikið. Smám saman lærir barnið að bíta af, tyggja og kyngja. Barninu er boðið nokkrar tegundir af fæðu í einu svo það geti sjálft valið hvað það vill borða. Mikilvægt er að barnið sitji upprétt þegar það borðar svo það ráði örugglega við að skila út úr sér mat sem vill ekki eða ræður kannski ekki við (eins og of stóran bita af banana).
Fólk sem heyrir af þessu hefur yfirleitt áhyggjur af því að maturinn standi í barninu, eðlilega. Ég gerði það líka fyrst þegar við byrjuðum. Kúgunarviðbragð ungbarna er framar en hjá fullorðnum þannig að þegar það stefnir í að barn nái ekki að kyngja bita, kúgast það og annaðhvort spýtir bitanum út eða heldur áfram að vinna á honum. Ég varð frekar stressuð þegar hann kúgaðist í fyrstu skiptin en hann náði alltaf að bjarga sér sjálfur. Í dag kúgast hann mjög sjaldan og hefur náð góðum tökum á því að tyggja. Maturinn verður þó að vera mjúkur svo tannlausir gómar geti unnið á honum og best er að hafa bita sem litlar hendur eiga auðvelt með að halda á. 
Mér fannst svo frábært að leyfa honum loksins að "leika" með mat - sem hafði nýja áferð, lykt og bragð! Skemmtilegt nýtt dót mamma! Við byrjuðum stuttu eftir að Esjar varð 6 mánaða að gefa honum mat. Ekki er mælt með því að gefa börnum að borða fyrir 6 mánaða aldur því meltingarvegurinn er ekki fullmótaður. Það þýðir samt ekki að um leið og barnið á hálfsárs afmæli að það þurfi að byrja. Stundum komu dagar sem hann fékk ekkert nema brjóstamjólk og það var allt í lagi. Smám saman sáum við að hann gat borðað meira og meira í einu samhliða því sem orkuþörfin jókst. Brjóstamjólkin heldur áfram að vera stór hluti af næringaruppsprettu ungbarna fram til um eins árs.
Í uppáhaldi hjá Esjari í dag er brokkolí, brauð með smjöri og pasta með pastasósu (Jamie Oliver pastasósan er í uppáhaldi hjá mér). Ég reyni að bjóða honum alltaf eitthvað tvennt eða þrennt í einu svo hann geti skipt á milli og borðað það sem hann er í stuði fyrir. Hann tekur alltaf eina matartegund fyrir í einu áður en hann skiptir og borðar næstu, merkilegt.
Undirbúið ykkur fyrir að þurfa að sópa/skúra gólfið reglulega og gott er að eiga nóg af þvottapokum eða tuskum og góðan ermasmekk eins og sést á myndinni fyrir neðan. Þessi fæst í Móðir, kona, meyja og finnst mér hann betri en þeir sem fást í Ikea, því teygjan um hendurnar er þrengri og helst á réttum stað.
Okkur finnst gaman að getað gefið Esjari fjölbreyttan mat, hann smakkar ýmsar kryddtegundir, kjöt og fisk en ekki bara einsleitan barnamat/graut. Hann borðar það sem við borðum og fyrir vikið borðum við betri mat. Við bjóðum honum ekki KFC!
Esjar fær að ráða hvað hann borðar mikið. Þegar hann er hættur að borða fer hann að leika sér, hendir mat frekar á gólfið eða hreinlega lætur mig vita að hann nenni þessu ekki lengur. Við setjum enga pressu á hann að borða meira en hann vill. Hér er ekkert "klára af disknum þínum". Ef við höldum að hann hafi ekki fengið nóg í einum matartíma leyfum við honum að leika sér og gefum honum svo aftur seinna.
Þegar barn er matað hefur það ekki vald yfir því hversu hratt það borðar, hvenær það hættir eða hvað það fær að borða því oftast er bara eitt í boði í einu.  Það er freistandi að athuga hvort barnið þurfi ekki eina skeið í viðbót, mögulega nokkrum skeiðum of oft. Það er líka erfitt að borða sjálfur ef önnur hendin sér um að gefa litlum munni að borða. Ef litlu hendurnar fá að spreyta sig í að koma mat upp í litla munnin geta bæði borðað á sama tíma og eytt meiri tíma í að brosa og spjalla! Við höfum samt alveg gefið honum mat með skeið en ég hugsa þá hvað það sé miklu þægilegra og skemmtilegra að leyfa honum að borða sjálfum. 
Hjá okkur er matartíminn róleg og þægileg stund þar sem við sitjum saman og borðum það sama. Ein af fáu rólegu stundunum sem maður fær með 10 mánaða fjörugan strák sem skríður á ógnarhraða um allt!
Esjar borðar AB mjólk og múslí - sjálfur
Að leyfa barni að borða sjálft hjálpar fjölskyldunni að uppfylla eitt af tengslauppeldishugtökum API: "Feed with love and respect".
Ingibjörg Baldursdóttir er BLW gúrú Íslands og býður upp á námskeið í Björkinni fyrir foreldra og börn. Á Facebook er góður stuðningshópur fyrir foreldra sem vilja kynna sér þessa aðferð og fá ráðleggingar frá öðrum foreldrum. 

Tengslauppeldi 101


Mér finnst ég vera svo heppin að hafa kynnst fræðigreininni tengslauppeldi. Ég er eflaust betri mamma fyrir vikið. Upplýstari, meðvitaðri og öruggariÉg byrjaði á því að lesa bókina Árin sem enginn man eftir Sæunni Kjartansdóttur. Vinkona mín sagðist óska þess að hún hefði lesið hana áður en hún átti sitt fyrsta barn, svo ég ákvað að gera það! Bókin er frábær og ég mæli með henni fyrir alla sem umgangast ung börn, en sérstaklega foreldra. Síðan í haust rataði ég í hóp á Facebook sem heitir Tenglsaforeldrar á Íslandi og fór þaðan á fyrirlestur um "Áhrif uppeldis á heilaþroska og persónuleika" sem Rakel Rán Sigurbjörnsdóttir fjölskylduráðgjafi hélt. Þá var ekki aftur snúið, ég varð alveg heilluð. Það var svo margt sem ég vildi óska að ég hefði vitað fyrir löngu, sérstaklega þegar ég vann á leikskólanum en er mjög ánægð að vita nú. 
Í nóvember 2012 stofnuðum við Rakel ásamt fleirum Félag fag- og áhugafólks um tengslauppeldi á Íslandi. Félagið ætlar að kynna samfélagið fyrir góðu áhrifum tengslauppeldis á einn og annan máta.
Mér hefur þó fundist erfitt að útskýra tengslauppeldi í stuttu máli á góðan máta en ætla að reyna. Í grunninn vil ég segja að það sé uppeldisstefna þar sem foreldri er meðvitaður og næmur á tilfinningar og þroska barnsins hverju sinni. Foreldri gerir raunhæfar kröfur til barnsins hvað varðar svefn, matarvenjur, getu til að vera aðskilið frá sér og fleira.
Skipta má hornsteinum tengslauppeldis upp í nokkur lykilhugtök (tekið frá Attachment Parenting International: Eight Principles of Parenting). Gaman væri að fjalla um hvert og eitt þeirra í sér færslu, kannski seinna. Öll þessi átta atriði eiga það sameiginlegt að stuðla að öruggri tengslagerð barns (sjá nánar um tengslagerðir, Wikipedia)
  1.   Undirbúningur fyrir meðgöngu, fæðingu og uppeldi
  2.   Næring með ást og virðingu
  3.    Bregðast við/svara með næmni
  4.    Hlýleg snerting
  5.    Tryggja öruggan svefn (barns), líkamlega sem og andlega
  6.    Veita skilyrðislausa og ástríka umönnun
  7.    Beita jákvæðum aga
  8.    Halda eigin jafnvægi og í fjöslkyldunni
Þau eru ekki nákvæm enda er ekki hér á ferð nein uppeldis-"handbók". Það eru engar skyldur eða reglur. Það er heldur ekki þannig að foreldrar þurfi að kynna sér þessi hugtök eða lesa helmikið efni til að nota tengslauppeldi. Þeir þurfa þó að vita aðeins aðeins meira en meðal maður um þroska barna fyrstu 3 árin og hafa öryggi til að fylgja eigin sannfæringu. Ef foreldrar eru í góðu jafnvægi og hafa sjálfir örugga tengslagerð munu þeir að mestu leyti ala börnin sín vel upp og mynda góð tengsl við þau. Séu foreldrar aftur á móti undir miklu álagi (vinna, slæm parasambönd, áhyggjufull) eða hafa óörugga tengslagerð er líklegt að það bitni á uppeldinu og seinna meir líðan og tengslagerð barnanna. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar velti fyrir sér þeim aðstæðum sem þeir vilja ala upp barn í og reyni að vinna úr vandamálum séu einhver til staðar. Hvert og eitt foreldri ætti að vera meðvitað um það uppeldi sem það sjálft hlaut (hugtak 1) og að margt frá því smitist út í þeirra eigin uppeldisaðferðir (nema þeir reyni að breyta því). Þetta ómeðvitaða "smit" er kallað uppeldisarfur.

Allra fyrstu dagarnir eftir fæðingu

Fyrstu dagana eftir að krílið er komið í heiminn er mikilvægt að hafa hlutina einfalda.

Öll einbeiting á að fara í að kynnast og tengjast barninu. Kúra, strjúka og tala blíðlega til þess. Öll snerting milli foreldra og barnsins eykur vellíðan og öryggi barnsins svo um að gera að vera sem mest hjá því.

Mamman þarf mikla hvíld, athygli og ummönun.
Best er liggja sem mest. Nefnilega, þegar nýbökuð móðir situr eða stendur eykst blóðflæðið niður í nára og veldur miklum þrýstingi á viðkvæmt svæði sem er mjög bólgið eftir fæðinguna.
Eins og það er gott að losna við þyngdina þá er ýmisleg önnur óþægindi sem koma í staðinn. Maginn er mjög laus og var mér hálf óglatt þegar ég stóð/gekk. Mér  fannst nauðsynlegt að hafa eitthvað þröngt utan um hann til að styðja við. Ég keypti mér aðhaldsbol í Hagkaup og fór ekki úr honum í nokkrar vikur!

Pabbinn hefur það hlutverk að færa henni vatnsglas (í hvert skipti sem hún gefur barninu að drekka og eftir þörfum), hjálpa henni að koma sér vel fyrir í brjóstagjöfinni (púðar), fylgjast með lyfjum sem hún er að taka (bólgueyðandi og verkjalyf), taka myndir og sjá um máltíðir.
Látið 1944 bjóða ykkur í mat eða kannski geta mamma ykkar eða pabbi eldað mat og komið með til ykkar.

Haldið gestum í algeru lágmarki, helst enga gesti fyrstu 2-3 dagana. Ef gestir koma passið að þeir stoppi ekki lengi. Þetta getur verið erfitt að neita ofurspenntum ættingjum og vinum um heimsókn en mamman er að jafna sig eftir mikið og erfitt ferli og á ekki auðvelt með að sitja eða standa lengi vegna verkja.
Þetta er ykkar stund, hinir mega alveg bíða í nokkra daga. Tilvalið er að (pabbinn) sendi myndir af krílinu til allra nánustu og skilaboð um hvenær velkomið er að hafa samband. Flestir skilja þetta mjög vel en alltaf eru sumir sem átta sig ekki á þessu.

Punktið hjá ykkur spurningar eða vangaveltur fyrir heimaljósmóðurina svo það gleymist ekki. Svo er auðvitað alltaf hægt að hringja upp á kvennadeild.
Kæra móðir, vertu viss um að brjóstagjöfin fari rétt fram. Annars er hætt við því að sár myndist og það er alls ekki þægilegt. Spurðu heimaljósuna eða hafðu samband við brjóstagjafaráðgjafa uppi á landspítala ef þú hefur einhverjar áhyggjur. Hugarfar getur haft mikil áhrif svo bjartsýni og jákvæðni eru góð lykilorð til að hafa í huga!

Ég og Esjar (eins dags gamall)

Lifið í augnablikinu, drekkið í ykkur tilfinningarnar og látið ykkur líða vel með litlu nýju ástinni ykkar.

Upphaf

Kæra vinkona,
ég er með þeim fyrstu til að eiga barn meðal vinkvenna minna og finnst mér ég hálfpartinn vera að ryðja brautina. Á síðustu átján mánuðum hef ég haft dágóðann tíma til að kynna mér margt sem tengist meðgöngu, fæðingu, brjóstagjöf, næringu og síðast en alls ekki síst, barnauppeldi. Ég hef lært svo ótal margt og heilmikið kom mér á óvart.
Eins og þekkt er vilja allir bjóða manni ráð og reynslusögur. Það sem ég hef rekið mig á er að ekki eru öll ráð góð ráð. Þó svo að einhver sé foreldri þýðir ekki að hann sé fullkominn ráðgjafi fyrir aðra foreldra. Alveg eins gildir með bækur. Þó svo að einhver geti skrifað og gefið út bók um barnauppeldi, þýðir ekki að allt sem í henni stendur séu bestu ráðleggingar sem völ er á. Börn í dag fæðast eins og börn fyrir hálfri öld en í dag er mikið meira vitað um ungbörn, svefn, næringu og heilaþroska þeirra svo eitthvað sé nefnt. Samt er þessi nýja þekking langt frá því að vera almenningi vel kunn. Þar vil ég reyna að hjálpa.
Vinkonur mínar hafa spurt mig ófárra spurninga um ýmislegt sem tengist þessu ferli og finnst mér æðislegt að geta svarað þeim. Ég fæ ósjaldan að heyra setninguna "þegar ég verð ólétt, ætla ég að hringja í þig og vil þú segir mér allt" og henni svara ég alltaf "að sjálfsögðu!". Til að ég geti komið frá mér öllu sem ég vildi ætlaði ég að reyna að skrifa þetta niður á meðan það er ferskt í reynslunni. Þá datt mér í hug að skrifa nokkur bréf, öll með yfirskriftinni "Kæra vinkona...". Þegar ég hugsaði lengra áttaði ég mig á því að mér myndi eflaust aldrei finnast vera nóg komið af bréfum. Esjar er alltaf að þroskast og ný verkefni koma upp og ég mun örugglega endalaust hafa ný ráð til að gefa. Þannig varð hugmyndin til að þessari vefsíðu.

Hér ætla ég að reyna að miðla minni reynslu og þekkingu til allra vinkvenna og kynsystra minna sem eiga eftir að ganga þessa einstöku og frábæru leið.
Verði ykkur að góðu kæru vinkonur, gamlar og nýjar!
Þórhildur