Upphaf

Kæra vinkona,
ég er með þeim fyrstu til að eiga barn meðal vinkvenna minna og finnst mér ég hálfpartinn vera að ryðja brautina. Á síðustu átján mánuðum hef ég haft dágóðann tíma til að kynna mér margt sem tengist meðgöngu, fæðingu, brjóstagjöf, næringu og síðast en alls ekki síst, barnauppeldi. Ég hef lært svo ótal margt og heilmikið kom mér á óvart.
Eins og þekkt er vilja allir bjóða manni ráð og reynslusögur. Það sem ég hef rekið mig á er að ekki eru öll ráð góð ráð. Þó svo að einhver sé foreldri þýðir ekki að hann sé fullkominn ráðgjafi fyrir aðra foreldra. Alveg eins gildir með bækur. Þó svo að einhver geti skrifað og gefið út bók um barnauppeldi, þýðir ekki að allt sem í henni stendur séu bestu ráðleggingar sem völ er á. Börn í dag fæðast eins og börn fyrir hálfri öld en í dag er mikið meira vitað um ungbörn, svefn, næringu og heilaþroska þeirra svo eitthvað sé nefnt. Samt er þessi nýja þekking langt frá því að vera almenningi vel kunn. Þar vil ég reyna að hjálpa.
Vinkonur mínar hafa spurt mig ófárra spurninga um ýmislegt sem tengist þessu ferli og finnst mér æðislegt að geta svarað þeim. Ég fæ ósjaldan að heyra setninguna "þegar ég verð ólétt, ætla ég að hringja í þig og vil þú segir mér allt" og henni svara ég alltaf "að sjálfsögðu!". Til að ég geti komið frá mér öllu sem ég vildi ætlaði ég að reyna að skrifa þetta niður á meðan það er ferskt í reynslunni. Þá datt mér í hug að skrifa nokkur bréf, öll með yfirskriftinni "Kæra vinkona...". Þegar ég hugsaði lengra áttaði ég mig á því að mér myndi eflaust aldrei finnast vera nóg komið af bréfum. Esjar er alltaf að þroskast og ný verkefni koma upp og ég mun örugglega endalaust hafa ný ráð til að gefa. Þannig varð hugmyndin til að þessari vefsíðu.

Hér ætla ég að reyna að miðla minni reynslu og þekkingu til allra vinkvenna og kynsystra minna sem eiga eftir að ganga þessa einstöku og frábæru leið.
Verði ykkur að góðu kæru vinkonur, gamlar og nýjar!
Þórhildur


Engin ummæli:

Skrifa ummæli