Bókarýni: How Eskimos Keep Their Babies Warm. Mei-Ling Hopgood.

Nú hef ég lesið nokkrar foreldrabækur og langar að segja ykkur frá þeim. Einni í einu til að gera það yfirstíganlegra og einfaldara.
Ég ætla að byrja á bókinni How Eskimos Keep Their Babies Warm af því að hún er í pínulitlu uppáhaldi hjá mér.
Höfundur bókarinnar, Mei-Ling Hopgood er bandarísk, ætleidd frá Kína. Hún er blaðamaður, hefur ferðast mikið um heiminn og hefur myndað sterk tengsl við upprunaland sitt. Þegar hún eignaðist dóttur sína rifjuðust upp fyrir henni hinir ýmsu siðir sem tengjast barneignum og uppeldi sem hún hafði orðið vitni að á ferðalögum sínum. Hún bar þá saman við það sem hún þekkti vel frá Bandaríkjunum og Kína og úr varð þessi áhugaverði samanburður.

Í bókinni eru 11 kaflar. Hver þeirra fjallar um eitt atriði og oftast einblínt á menningu og siði í einu landi í einu. Sem dæmi má nefna, mataræði barna í Frakklandi, svefnvenjur á Spáni og bleiuleysi í Kína.
Hún segir frá sinni eigin reynslu (og tilraunum) með dóttur sína á einlægan og mannlegan hátt. Einnig kannar hún sögu, mannfræði og vísindi tengt hverju málefni svo bókin er mjög fróðleg.

Þegar ég les um allar þessar mismunandi leiðir til að hugsa um börn í hinum ýmsu samfélögum get ég ekki annað en hugsað: Auðvitað, okkar leið er ekkert sú eina rétta! Það er bara svona sem við erum vön að gera þetta. Kannski er miklu sniðugara að gera eins og Frakkarnir/Spánverjarnir/Kínverjarnir. Ýmislegt hvatti mig til að endurskoða hvernig ég hugsa um hlutina og prófa aðrar nálganir.

Þessi bók er skemmtilegasta foreldrabók sem ég hef lesið.


Ef þið hafið áhuga á að lesa hana fæst hún á amazon.com. Þannig er hægt að lesa í kindle eða á snjallsíma/spjaldtölvu eða fartölvu með því að sækja kindle forrit frítt.