Horfa, hinkra og hugsa


Á fyrirlestri hjá Sæunni Kjartansdóttur sálgreini um Tengsl foreldra og barna komu "frekjuköst" til umræðu, þá aðallega barna í kringum 2-4 ára aldur. Foreldrar vilja eðlilega fá ráð við hvernig bregðast megi við slíkum köstum og vil ég benda á grein Rakelar fjölskylduráðgjafa um skapofsaköst. Sæunn spurði hinsvegar hvort foreldrarnir gætu séð einhvern aðdraganda eða orsök fyrir köstunum. Hún sagði svo frá einfaldri leið til að fækka slíkum köstum. Sú aðferð nefnist Horfðu, hinkraðu og hugsaðu (eða á ensku Watch, wait and wonder) og er meðferðarúrræði til að bæta tengsl foreldra og ungra barna. Með bættum tengslum öðlast barn (og foreldri) betri líðan.
Horfðu, hinkraðu og hugsaðu
Eitt foreldri og eitt barn eyða hálftíma saman á þægilegum stað án truflana. Ekkert sjónvarp eða tölva. Barnið fær algerlega að ráða hvað er gert á þessum hálftíma og fær óskipta athygli foreldrisins á meðan. Mamman/pabbinn má ekki gera neitt annað en fylgjast með barninu (ekki prjóna eða lesa). Vera til staðar, andlega og líkamlega. Fylgjast með og læra á barnið sitt. Ef barnið vill leika við mömmu eða pabba þá er það velkomið. Þetta er gert á hverjum degi eða eins oft og mögulegt er. Hægt er að nota þessa tækni frá 6 mánaða aldri (og örugglega fyrr). Tilvalið fyrir börn og foreldra að ná saman eftir heilan dag af fjarveru hvort frá öðru. Sæunn sagði að fjölskyldur sem prófuðu þessa aðferð fundu mikinn mun. Bæði foreldrum og barni líður betur.

Það kemur mér alls ekki á óvart að þetta beri árangur. Reynsla okkar hefur sýnt að þegar við náum ekki að vera  mikið til staðar fyrir Esjar í ákveðinn tíma, kvartar hann meira. Minna má út af bregða og hann "hangir meira í okkur". Þetta eru til dæmis dagar þar sem við þurfum bæði að læra mikið og fáum jafnvel aðstoð við að passa. Eða löng veisla þar sem allir vilja leika við hann eða halda á honum. Þá er það eina sem hann þarf gæðastund með mömmu sinni eða pabba.

Ég ætla reyna að sjá til þess að Esjar fái reglulega, og eins oft og hægt er, ótruflaða samverustund með pabba sínum eða mömmu. 


Eiga ekki allir nokkra hálftíma á viku handa barninu sínu?


Sæunn Kjartansdóttir er höfundur bókarinnar Árin sem enginn man. Flestir sem lesa bókina eru mjög ánægðir að hafa lesið hana og vildu óska þess þeir hefðu lesið hana fyrr - sérstaklega ef þeir eiga eldri börn. Ég byrjaði að lesa hana þegar Esjar var minnir mig tveggja mánaða og hefði ég alveg viljað byrja fyrr. Því vil ég mæla með þessar bók fyrir alla - sérstaklega þá sem eiga von á barni!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli