Er hann ekki "vær og góður"?

Æj þessi spurning. Er ekkert annað hægt að spyrja nýbakað foreldra? Börn "eiga" ekki endilega að vera fullkomlega vær og góð alltaf. Auðvitað er gaman þegar gengur mjög vel. Þegar barn og foreldri smella frábærlega saman og læra fljótt hvort inn á annað. En allt hitt er líka alveg eðlilegt. Hér eru upplýsingar af tveimur glærum frá barnalækninum Sigurði Þorgrímssyni um "Algeng vandamál á fyrsta ári."

Óværð ungbarna

 • Heilbrigð og eðlileg börn gráta
 • Grátur er hluti af eðlilegri hegðun
 • Ung börn gráta af ýmsum ástæðum:
  • vantar athygli
  • eru svöng
  • líður illa
  • finna til
 • Óværð er ein algengasta kvörtun foreldra vegna ungbarna á fyrstu vikum og mánuðum
 • Veldur oft kvíða [hjá foreldrum] og leiðir til óæskilegra breytinga á umönnun barna
 • Leiðir einnig til vafasamra rannsókna sjúkdómsgreininga og meðferða [óhefðbundnar lækningar eins og hómópatía og höfuðbeina- og spjaldhryggjöfnun]
 • Mikill kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið
 • Líkamleg vandamál skýra sennilega innan við 5%.
Þarna slær hann á þá hugmynd að öll börn eigi að vera "vær og góð". Að vera ungbarn er heilmikil og krefjandi vinna og ekki skrýtið að stundum gangi aðeins illa. Foreldrar þurfa líka tíma til að jafna sig á fæðingunni/meðgöngunni og finna sig í nýja ábyrgðarfulla hlutverkinu. Oft leitar fólk þó frekar líkamlegra skýringa þó þær séu eins óalgengar og innan við 5%. Ég vildi að ég myndi oftar heyra fólk segja við nýbakaða foreldra "líður honum ekki bara best hjá mömmu sinni/pabba sínum?" t.d. þegar barn kvartar í fangi ókunnugra heldur en "er maginn að angra hann?".Í heildina litið var Esjar frekar auðvelt barn. Allavega í minningunni. Oftast svaraði ég ofanræddri spurningu með "jú, alger draumur." En það komu tímar þar sem honum leið ekki vel og ég var ekki viss hvað ég gæti gert til að bæta það. Ég man sérstaklega eftir einu kvöldi. Það var fyrsta skiptið sem ég heyrði hann gráta virkilega mikið. Ég var skelfingu lostin. Tilfinningin að sjá barnið sitt gráta svona og eiga erfitt með að róa það var svakaleg. Hann hefur verið nokkra vikna þá og sem betur fer varð þetta ekki algengur viðburður.
Síðan um fjögurra mánaða kom óværðartímabil. Þá kveið ég kvöldunum en hann var oftast órólegur þá. Ég hélt að ég væri að missa mjólkina en reyndi þó að halda jákvæðu hugarfari. Það eina sem virkaði var að leyfa honum að drekka eins og hann vildi - "hanga á brjóstinu" eins og maður myndi kalla það.  Stundum fannst mér eins og gjafirnar ætluðu engan endi að taka! Ég hugsaði um að bæta við þurrmjólkurábót en prófaði fyrst að mjólka mig að morgni þegar nóg var af mjólk og gefa honum í pela um kvöldið. Það hjálpaði aðeins.
Kjartan var duglegur að segja við mig að þetta væri örugglega bara vaxtarkippur og í dag hugsa ég að það sé besta útskýringin sem mæður geta gefið sér. "Þetta er örugglega bara vaxtarkippur og eina lausnin er að gefa barninu að drekka eins oft og hægt er. Mundu að drekka nóg vatn sjálf ". Ég las seinna grein eftir Ingibjörgu Baldursdóttur brjóstagjafaráðgjafa sem heitir Óróleg brjóstabörn á kvöldin. Þessi grein hitti algerlega í mark hjá mér! Þetta var nákvæmlega það sem gerðist hjá mér. Og lausnin sem hún gefur er einfaldlega "bara gott að hafa þau sem mest hjá sér og hafa frjálsan aðgang að brjóstinu, koma sér vel fyrir með allt innan seilingar." Burðarsjal kemur sterklega inn hér! Slappa af og gefa þeim nógu oft að drekka og mikla nálægð. Enn huggulegt!
Ef brjóstagjöfin gengur hinsvegar mjög illa gæti verið gott að leita ráðgjafar. Íslensku Brjóstagjafasamtökin er góður byrjunarreitur þar. Á síðunni þeirra er að finna upplýsingar um brjóstagjöf og stuðningskonur, en til þeirra er hægt að sækja ráð um brjóstagjöf sér að kostnaðarlausu.
Við fórum á brjóstagjafanámskeið hjá Björkinni. Það var mjög fróðlegt og ég mæli með því. Fjölmörgum (óspurðum) spurningum svarað og ég fylltist tilhlökkunar fyrir brjóstagjöfinni. Þetta er það sem ég tók með mér af námskeiðinu:

Punktar um brjóstagjöf

 • Vertu jákvæð og bjartsýn. Það hjálpar heilmikið. "Þetta mun ganga, ég mjólka vel."
 • Það skiptir máli að barnið nái að taka brjóstið rétt. Fáðu aðstoð til að læra það. Ég bjallaði alltaf á ljósmóður þegar ég lá á Hreiðrinu þó þær gæfu nú mismunandi ráð. Við vorum síðan svo "heppin" þegar við lögðumst inn með gulu að ljósmóðirin á vakt var brjóstagjafaráðgjafi. Hún kom mér algerlega upp á lagið með þetta - þúsund þakkir!
 • Drekktu vatn og hvíldu þig. 

Gangi ykkur vel, nýbökuðu foreldrar, þið standið ykkur eins vel og þið getið! Sækið hjálp þar sem hana er að fá. Slappið af og njótið.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli