Síðustu dagarnir fyrir settan dag

"Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 

Ég var sett á þriðjudaginn 8. maí. 
Á mánudeginum fékk ég samdráttahrinu og var ég viss um að nú væri ég að fara af stað. Við bættum í spítalatöskuna það sem upp á vantaði. Ég hringdi upp á Hreiður og lét vita að ég væri líklega að fara af stað og þær sögðu mér að fá mér að borða og koma þegar verkirnir væru orðnir veri og styttra á milli. Ég vildi borða Á næstu grösum en Klapparstígurinn var lokaður vegna framkvæmda. Við enduðum þá á Nings í staðinn. Við vildum ekkert hringja í fjölskylduna fyrr en við værum komin upp á spítala en önnur mamman hringdi svo þá létum við hina vita. Á meðan við sátum og borðuðum orkuríkan kínverskan mat fækkaði samdráttunum og úr varð að við keyrðum aftur heim. Pínu vonsvikin, ég neita því ekki.
Einn dagur í settan dag. "Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 
Á þriðjudag mættum við í 40. vikna skoðun hjá ljósmóður. Ég vonaði innilega að hún myndi gera einhver töfrabrögð og senda okkur upp á fæðingardeild. Skoðunin kom vel út en henni fannst ég ekki nógu "fæðingarleg". Hún sagði að það sæist oft vel á konum. Stundum kemur af þeim sérstök lykt. Kjartan kannaðist ekki við neina sérstaka lykt. Hún sagði að ég myndi líklega eiga á fimmtudegi. Jæja, heim fórum við aftur nú til að googla "ways to induce labor".
Settur dagur. "Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 
Miðvikudagur leið með óþreyjufullu hangsi í tölvunni, kröftugum göngutúr, skoðandi uppskriftir að sterkum mat, raða barnafötum í skúffur og annarri hreiðurgerð. Fékk nokkur skilaboð með: Hvernig gengur? Engir verkir? Ekkert að gerast?
Einn dagur framyfir. "Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 
Það var ekki fyrr en á fimmtudag þegar ég var viss um að barnið kæmi ekki þann daginn að ég hugsaði: "ég þyrfti kannski frekar bara að slappa af." Ég lagðist inn í rúm, horfði á Modern Family og borðaði súkkulaði. Ég var eflaust búin að koma mér fyrir í svaka huggulegri stöðu, með einn kodda undir bumbunni, annan milli læranna, tvo undir höfði og öxlum og ýmislegt annað sem ég hef fundið til að liða vel. 

Svo mikil varð afslöppunin að ég sótti mér ekki vatn sjálf. 
Fimmtudagskvöld, tveir dagar framyfir.
Eftir miðnætti fann ég aukna samdrætti (af hverju var ég ekki farin að sofa!?). Nú grunaði mig að eitthvað gæti farið af stað.
Tveir dagar framyfir. "Núna er þetta að gerast, ég verð að fara að sofa". 
Föstudag, klukkan 5:20 vaknaði ég við verki. Hringdi fljótlega upp í Hreiður þar sem mér var ráðlagt að taka verkjalyf og fara í bað. Sem ég gerði og vildi helst ekkert koma úr baðinu. Eitthvað þurfti ég þó að borða en ekkert var til svo Kjartan skaust í Nóatún að kaupa orkuríkan mat. Eggjahræra, prótínstykki, powerade var það sem ég náði að koma niður að einhverju leyti áður en verkirnir nálguðust að vera óbærilegir. Þá, um níu leytið, keyrðum við upp á spítala. Ekki hefði mátt seinna vera því ég var komin með 7-8 í útvíkkun þegar ljósmóðir skoðaði mig. Kjartan sagði: "var ég bara í Nóatún og þú með 8 í útvíkkun?!"
Innan skamms var ég komin í fæðingarlaug með glaðloft í túbu að vinna í gegnum hríðirnar. Drengur fæddist klukkan 13.25. Fæðingarsaga kemur seinna ;)

Kæra vinkona, ef þú ert á síðustu dögunum fyrir settan dag vil ég segja þér...

...slappaðu af. Það verður nóg að gera næstu daga. Barnið kemur. Fæðingin verður ótrúleg og líklega dásamleg. Slökktu á facebook. Lestu um fyrstu dagana eftir fæðingu. Láttu dekra við þig. Láttu þig dagdreyma með góðri tónlist. Farðu í bað. Drekktu vatn. Talaðu við barnið þitt. Skrifaðu dagbók. Andaðu. 
Gangi þér rosalega vel, þetta verður yndislegt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli