Tengslauppeldi 101


Mér finnst ég vera svo heppin að hafa kynnst fræðigreininni tengslauppeldi. Ég er eflaust betri mamma fyrir vikið. Upplýstari, meðvitaðri og öruggariÉg byrjaði á því að lesa bókina Árin sem enginn man eftir Sæunni Kjartansdóttur. Vinkona mín sagðist óska þess að hún hefði lesið hana áður en hún átti sitt fyrsta barn, svo ég ákvað að gera það! Bókin er frábær og ég mæli með henni fyrir alla sem umgangast ung börn, en sérstaklega foreldra. Síðan í haust rataði ég í hóp á Facebook sem heitir Tenglsaforeldrar á Íslandi og fór þaðan á fyrirlestur um "Áhrif uppeldis á heilaþroska og persónuleika" sem Rakel Rán Sigurbjörnsdóttir fjölskylduráðgjafi hélt. Þá var ekki aftur snúið, ég varð alveg heilluð. Það var svo margt sem ég vildi óska að ég hefði vitað fyrir löngu, sérstaklega þegar ég vann á leikskólanum en er mjög ánægð að vita nú. 
Í nóvember 2012 stofnuðum við Rakel ásamt fleirum Félag fag- og áhugafólks um tengslauppeldi á Íslandi. Félagið ætlar að kynna samfélagið fyrir góðu áhrifum tengslauppeldis á einn og annan máta.
Mér hefur þó fundist erfitt að útskýra tengslauppeldi í stuttu máli á góðan máta en ætla að reyna. Í grunninn vil ég segja að það sé uppeldisstefna þar sem foreldri er meðvitaður og næmur á tilfinningar og þroska barnsins hverju sinni. Foreldri gerir raunhæfar kröfur til barnsins hvað varðar svefn, matarvenjur, getu til að vera aðskilið frá sér og fleira.
Skipta má hornsteinum tengslauppeldis upp í nokkur lykilhugtök (tekið frá Attachment Parenting International: Eight Principles of Parenting). Gaman væri að fjalla um hvert og eitt þeirra í sér færslu, kannski seinna. Öll þessi átta atriði eiga það sameiginlegt að stuðla að öruggri tengslagerð barns (sjá nánar um tengslagerðir, Wikipedia)
  1.   Undirbúningur fyrir meðgöngu, fæðingu og uppeldi
  2.   Næring með ást og virðingu
  3.    Bregðast við/svara með næmni
  4.    Hlýleg snerting
  5.    Tryggja öruggan svefn (barns), líkamlega sem og andlega
  6.    Veita skilyrðislausa og ástríka umönnun
  7.    Beita jákvæðum aga
  8.    Halda eigin jafnvægi og í fjöslkyldunni
Þau eru ekki nákvæm enda er ekki hér á ferð nein uppeldis-"handbók". Það eru engar skyldur eða reglur. Það er heldur ekki þannig að foreldrar þurfi að kynna sér þessi hugtök eða lesa helmikið efni til að nota tengslauppeldi. Þeir þurfa þó að vita aðeins aðeins meira en meðal maður um þroska barna fyrstu 3 árin og hafa öryggi til að fylgja eigin sannfæringu. Ef foreldrar eru í góðu jafnvægi og hafa sjálfir örugga tengslagerð munu þeir að mestu leyti ala börnin sín vel upp og mynda góð tengsl við þau. Séu foreldrar aftur á móti undir miklu álagi (vinna, slæm parasambönd, áhyggjufull) eða hafa óörugga tengslagerð er líklegt að það bitni á uppeldinu og seinna meir líðan og tengslagerð barnanna. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar velti fyrir sér þeim aðstæðum sem þeir vilja ala upp barn í og reyni að vinna úr vandamálum séu einhver til staðar. Hvert og eitt foreldri ætti að vera meðvitað um það uppeldi sem það sjálft hlaut (hugtak 1) og að margt frá því smitist út í þeirra eigin uppeldisaðferðir (nema þeir reyni að breyta því). Þetta ómeðvitaða "smit" er kallað uppeldisarfur.
Sumstaðar þar sem tengslauppeldi er orðið ágætlega þekkt (t.d. í Bandaríkjunum) hefur skapast ákveðin staðalímynd á "tengslaforeldra". Hinir típýsku tengslaforeldrar hafa börn sín á brjósti, láta þau sofa hjá sér, bera þau í burðar-sjölum/pokum og eru almennt voða "mjúkir" í uppeldi. Það er ekki af ástæðulausu því ef litið er á hugtök 2, 4, 5 og 7 þá speglast þau í þessum aðferðum. 
Brjóstagjöf hefur afar góð áhrif á tengslamyndun. 
Að sofa með börnin hjá sér veitir þeim mikið öryggi og gerir foreldrum auðveldara með að sinna barni um nótt. 
Að bera börnin í sjali/poka eykur tíma þar sem barn er í náinni snertingu við foreldri sitt. 
Með jákvæðum aga forðast foreldri aðstæður þar sem grípa þarf inn í hegðun/leik barns eða "skamma" þarf fyrir. Hótanir og hefðbundnar skammir eru ekki notaðar né að vekja viljandi upp tilfinningar um ótta. Þetta kalla sumir "mjúku" leiðina.
Ég er ekki að reyna að ýta undir þessa staðalímynd eða segja að þessir hlutir séu nauðsynlegir. Þeir gefa þó ágæta hugmynd af einföldum hlutum sem hjálpa til þegar styrkja á tengsl milli foreldra og barns. Þær henta eðlilega ekki öllum en hafa hentað okkur mjög vel hingað til.
Þetta er aðeins gróf lýsing á tengslauppeldi en heilmikill dýpri fróðleikur býr að baki. Tengslafræði, vitneskja um heilaþroska barna, þróunarfræði og mannfræði, tilraunir og rannsóknir styðja þessa leið í uppeldi. Ég hlakka til að kynna mér þetta betur og getað kannski hjálpað fólki að skilja börnin sín betur.
Ef þú hefur áhuga á að kynna þér tengslauppeldi betur mæli ég með því að fylgja tenglinum á Attachment Parenting International vefsíðuna og skoða þig um þar eða lesa bókina Árin sem enginn man. Ef einhverjar spurningar vakna sem ég get mögulega svarað eru þær velkomnar í athugasemdir, í tölvupóst til mín (thorhildurmagnusdottir@gmail.com) eða í gegnum Facebook/thorhildurmagnusdottir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli