Hvernig á ég að gefa barninu mínu að borða?

Flestir nýjir foreldrar pæla mikið í því hvað eigi að gefa barninu að borða og hvenær sé rétti tíminn til að byrja. Hvenær má barnið fá hafragraut eða skyr? Verð ég að gefa grænmeti fyrst áður en hún smakkar ávexti? Er banani of stemmandi? Hvaða grautur er bestur?
En fáir pæla í því hvernig sé best að gera það. Hugmyndin sem flestir hafa af ungbörnum er sú að þau séu ófær um að borða sjálf og þau verði að mata með skeið. Þetta er nefnilega ekki alveg rétt. Nokkurra mánaða gömul börn geta haldið vel á ýmsum hlutum svo sem sokkunum sínum, taubleium, snuði og dóti. Það vita allir að þau stinga öllu upp í sig. Af  hverju ættu þau þá ekki að geta set mat upp í sig líka? Þau geta það vel - og hafa gaman af því! Þegar ég var ólétt keypti ég góðan blandara og ætlaði heldur betur að gera mitt eigið barnamauk. Esjar er núna að nálgast eins árs og hefur aldrei fengið mat úr þessum blandara. Þá hafði ég aldrei heyrt um BLW en það hefur reynst okkur rosalega vel.
Baby Led Weaning (BLW) eða Barnið borðar sjálft er aðferð til að kynna mat fyrir ungbörnum þannig að þau sjálf ráða ferðinni. "The baby leads the way." Þegar barn er fært um að sitja upprétt sjálft er það tilbúið til að prófa sig áfram með mat. Til að byrja með kynnist barnið nýjum áferðum og bragði án þess endilega að innbyrða mjög mikið. Smám saman lærir barnið að bíta af, tyggja og kyngja. Barninu er boðið nokkrar tegundir af fæðu í einu svo það geti sjálft valið hvað það vill borða. Mikilvægt er að barnið sitji upprétt þegar það borðar svo það ráði örugglega við að skila út úr sér mat sem vill ekki eða ræður kannski ekki við (eins og of stóran bita af banana).
Fólk sem heyrir af þessu hefur yfirleitt áhyggjur af því að maturinn standi í barninu, eðlilega. Ég gerði það líka fyrst þegar við byrjuðum. Kúgunarviðbragð ungbarna er framar en hjá fullorðnum þannig að þegar það stefnir í að barn nái ekki að kyngja bita, kúgast það og annaðhvort spýtir bitanum út eða heldur áfram að vinna á honum. Ég varð frekar stressuð þegar hann kúgaðist í fyrstu skiptin en hann náði alltaf að bjarga sér sjálfur. Í dag kúgast hann mjög sjaldan og hefur náð góðum tökum á því að tyggja. Maturinn verður þó að vera mjúkur svo tannlausir gómar geti unnið á honum og best er að hafa bita sem litlar hendur eiga auðvelt með að halda á. 
Mér fannst svo frábært að leyfa honum loksins að "leika" með mat - sem hafði nýja áferð, lykt og bragð! Skemmtilegt nýtt dót mamma! Við byrjuðum stuttu eftir að Esjar varð 6 mánaða að gefa honum mat. Ekki er mælt með því að gefa börnum að borða fyrir 6 mánaða aldur því meltingarvegurinn er ekki fullmótaður. Það þýðir samt ekki að um leið og barnið á hálfsárs afmæli að það þurfi að byrja. Stundum komu dagar sem hann fékk ekkert nema brjóstamjólk og það var allt í lagi. Smám saman sáum við að hann gat borðað meira og meira í einu samhliða því sem orkuþörfin jókst. Brjóstamjólkin heldur áfram að vera stór hluti af næringaruppsprettu ungbarna fram til um eins árs.
Í uppáhaldi hjá Esjari í dag er brokkolí, brauð með smjöri og pasta með pastasósu (Jamie Oliver pastasósan er í uppáhaldi hjá mér). Ég reyni að bjóða honum alltaf eitthvað tvennt eða þrennt í einu svo hann geti skipt á milli og borðað það sem hann er í stuði fyrir. Hann tekur alltaf eina matartegund fyrir í einu áður en hann skiptir og borðar næstu, merkilegt.
Undirbúið ykkur fyrir að þurfa að sópa/skúra gólfið reglulega og gott er að eiga nóg af þvottapokum eða tuskum og góðan ermasmekk eins og sést á myndinni fyrir neðan. Þessi fæst í Móðir, kona, meyja og finnst mér hann betri en þeir sem fást í Ikea, því teygjan um hendurnar er þrengri og helst á réttum stað.
Okkur finnst gaman að getað gefið Esjari fjölbreyttan mat, hann smakkar ýmsar kryddtegundir, kjöt og fisk en ekki bara einsleitan barnamat/graut. Hann borðar það sem við borðum og fyrir vikið borðum við betri mat. Við bjóðum honum ekki KFC!
Esjar fær að ráða hvað hann borðar mikið. Þegar hann er hættur að borða fer hann að leika sér, hendir mat frekar á gólfið eða hreinlega lætur mig vita að hann nenni þessu ekki lengur. Við setjum enga pressu á hann að borða meira en hann vill. Hér er ekkert "klára af disknum þínum". Ef við höldum að hann hafi ekki fengið nóg í einum matartíma leyfum við honum að leika sér og gefum honum svo aftur seinna.
Þegar barn er matað hefur það ekki vald yfir því hversu hratt það borðar, hvenær það hættir eða hvað það fær að borða því oftast er bara eitt í boði í einu.  Það er freistandi að athuga hvort barnið þurfi ekki eina skeið í viðbót, mögulega nokkrum skeiðum of oft. Það er líka erfitt að borða sjálfur ef önnur hendin sér um að gefa litlum munni að borða. Ef litlu hendurnar fá að spreyta sig í að koma mat upp í litla munnin geta bæði borðað á sama tíma og eytt meiri tíma í að brosa og spjalla! Við höfum samt alveg gefið honum mat með skeið en ég hugsa þá hvað það sé miklu þægilegra og skemmtilegra að leyfa honum að borða sjálfum. 
Hjá okkur er matartíminn róleg og þægileg stund þar sem við sitjum saman og borðum það sama. Ein af fáu rólegu stundunum sem maður fær með 10 mánaða fjörugan strák sem skríður á ógnarhraða um allt!
Esjar borðar AB mjólk og múslí - sjálfur
Að leyfa barni að borða sjálft hjálpar fjölskyldunni að uppfylla eitt af tengslauppeldishugtökum API: "Feed with love and respect".
Ingibjörg Baldursdóttir er BLW gúrú Íslands og býður upp á námskeið í Björkinni fyrir foreldra og börn. Á Facebook er góður stuðningshópur fyrir foreldra sem vilja kynna sér þessa aðferð og fá ráðleggingar frá öðrum foreldrum. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli