Minningabanki


Kannast ekki allir við það að heyra tónlist sem vekur upp minningar og tilfinningarSumarsmellir, jólalög, geisladiskur úr ferðalagi eða vinsælasta tónlistin frá unglingsárunum.
Núna sé ég að þetta er frábær leið til að skrá minningar!
Birna vinkona mín úr maí-mömmuhópnum var með þeim fyrstu í mánuðinum til að eiga. Þegar hún var komin heim með dóttur sína lýsti hún hamingjuástandinu á heimilinu sem svo að þau svifu um á bleiku skýi og með lýsingunni fylgdi lagið "Loving you" - Minnie Ripeton. Þegar hún sagði okkur í hópnum frá þessu var hann enn að mestu leyti bumbuhópur og allar biðu spenntar eftir stóru stundinni. Ég var rúmri viku frá því að eiga. Mér fannst þetta lag svo yndislegt! Ég spilaði það oft dagana á eftir meðan ég beið og lét mig dreyma um litla hnoðrann sem ég fengi von bráðar í hendurnar. Ég hlakkaði mikið til að kyssa pínulitlu iljarnar og að liggja með hann í baði.
Eftir að Esjar kom í heiminn spilaði ég lagið áfram því einhvern tímann heyrði ég að börn ættu að geta þekkt lög úr móðurkviði og fannst það rosa sniðugt - ég hafði samt enga leið til að vita hvort hann kannaðist við það. En lagið passaði líka mjög vel við stemminguna og tilfinningarnar sem voru í gangi fyrstu dagana.
Núna, næstum ári seinna, fæ ég fiðring í magann þegar ég heyri Minnie og fuglanna syngja þetta krúttlega lag. "Sumar í loftinu, lykt af nýfædda syninum, litlar tásur, lítil sæt föt í notkun, krúttleg hljóð, litlar stjórnlausar hreyfingar, veit ekkert hvaða dagur er..."
Með þessu lagi rifja ég upp tilfinningar og upplifanir sem ómögulegt er að geyma á annan hátt. Ég mæli með því að velja sér eitthvað gott lag eða tónlist sem svona minningabanka fyrir þennan einstaka tíma - þessi magafiðrildi eru yndisleg að rifja upp.
Takk aftur Birna fyrir að deila þessu yndislega lagi með okkur!

Ég ætla að endurtaka minningabankann þegar kemur að því að eignast annað barn og þá með annað lag. Ef þú veist um gott "svífandi um á bleiku skýi" lag máttu láta mig vita ;)

2 ummæli:

  1. Þegar dóttir mín var nýfædd sendi mágkona mín mér lagið "Isn't she lovely?" sem Stevie Wonder samdi þegar hann eignaðist dóttur. Ég get ennþá ekki heyrt það án þess að brosa eins og bjáni og fá tár í augun.

    Kveðja, Þórdís

    SvaraEyða
  2. Skemmtilegt og mikilvægt bloggið þitt.
    Mig langar annars að stinga upp á laginu Ást með Ragnheiði Gröndal. Það er yndislegt lag og er einmitt mitt minninga lag frá þeim tíma sem ég var með minn elsta nýfæddan.

    Lilja Kristín Ó

    SvaraEyða