Sýnir færslur með efnisorðinu barnaburður. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu barnaburður. Sýna allar færslur

Er hann ekki "vær og góður"?

Æj þessi spurning. Er ekkert annað hægt að spyrja nýbakað foreldra? Börn "eiga" ekki endilega að vera fullkomlega vær og góð alltaf. Auðvitað er gaman þegar gengur mjög vel. Þegar barn og foreldri smella frábærlega saman og læra fljótt hvort inn á annað. En allt hitt er líka alveg eðlilegt. Hér eru upplýsingar af tveimur glærum frá barnalækninum Sigurði Þorgrímssyni um "Algeng vandamál á fyrsta ári."

Óværð ungbarna

  • Heilbrigð og eðlileg börn gráta
  • Grátur er hluti af eðlilegri hegðun
  • Ung börn gráta af ýmsum ástæðum:
    • vantar athygli
    • eru svöng
    • líður illa
    • finna til
  • Óværð er ein algengasta kvörtun foreldra vegna ungbarna á fyrstu vikum og mánuðum
  • Veldur oft kvíða [hjá foreldrum] og leiðir til óæskilegra breytinga á umönnun barna
  • Leiðir einnig til vafasamra rannsókna sjúkdómsgreininga og meðferða [óhefðbundnar lækningar eins og hómópatía og höfuðbeina- og spjaldhryggjöfnun]
  • Mikill kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið
  • Líkamleg vandamál skýra sennilega innan við 5%.
Þarna slær hann á þá hugmynd að öll börn eigi að vera "vær og góð". Að vera ungbarn er heilmikil og krefjandi vinna og ekki skrýtið að stundum gangi aðeins illa. Foreldrar þurfa líka tíma til að jafna sig á fæðingunni/meðgöngunni og finna sig í nýja ábyrgðarfulla hlutverkinu. Oft leitar fólk þó frekar líkamlegra skýringa þó þær séu eins óalgengar og innan við 5%. Ég vildi að ég myndi oftar heyra fólk segja við nýbakaða foreldra "líður honum ekki bara best hjá mömmu sinni/pabba sínum?" t.d. þegar barn kvartar í fangi ókunnugra heldur en "er maginn að angra hann?".

Burðargræjur trompa alltaf kerruna


Margir myndu segja að þeir gætu ekki verið án kerru en ég ætla að gerast svo djörf að segja að við gætum það - með burðargræjum. Við höfum verið kerrulaus í rúmlega mánuð núna. Ég hef ekki einu sinni saknað kerrunnar.
Ég man reyndar ekki eftir neinu skipti þar sem ég hef sleppt því að taka kerruna og saknað hennar. Hinsvegar hafa komið nokkur skipti þar sem ég tók kerruna og sá eftir því!
Eitt skiptið var Esjar örugglega fjögurra mánaða og ég fór með hann í Smáralind. Eftir að hafa farið í nokkrar búðir og setið í smástund á kaffihúsi var hann orðinn þreyttur. Ég gaf honum að drekka, skipti á honum og setti hann aftur í kerruna. "Ónei takk mamma - hér vil ég ekki vera! Ég er þreyttur og vil vera hjá þér!" Bíllinn var því miður lagður í hinum endanum svo það var alveg smástund áður en við kæmumst þangað. Sem betur fer var ég með teygjanlega sjalið með mér. Ég náði að binda það í flýti með þreytt, grátandi barn í kerru og áður en ég (og allt kaffihúsið) vissi af hafði hann róast og leið miklu betur þéttvafinn framan á mömmu sinni. Hann sofnaði fljótlega og ég gekk yfir alla Smáralind með tóma kerru .
Annað skiptið var frekar nýlega, áður en ég "lagði" kerrunni, Esjar um það bil tíu mánaða. Ég var ásamt hópi mæðra á leið í útileikfimi í Elliðaárdalnum. Ég hafði hugsað mér að ganga með hann á bakinu og skilja kerruna eftir. Samt hugsaði ég að hann gæti kannski sofnað og þá væri gott að leggja hann niður svo ég tók kerruna með. Það gekk mjög vel að ganga með hann á bakinu og honum fannst þetta skemmtilegt. Við gengum í smástund og stoppuðum svo til að gera nokkrar æfingar, sipp, armbeygjur og slíkt. Ég setti Esjar í grasið á teppi þar sem hann sat og lék sér og borðaði Cheerios. Hin börnin urðu smátt og smátt leið á því að liggja í vögnum/kerrum og bættust í hópinn á grasið. Þar sátu þau og skiptust á nesti og stútkönnum :) Að æfingum loknum fóru öll börn aftur í farartækin sín en Esjar í pokann sinn á bakið á mér. Við gengum svo tilbaka, gerðum hnébeygjur á leiðinni sem Esjari fannst mjög skemmtilegt! Þegar "æfingin" var búin ákváðum ég og tvær aðrar að halda áfram að labba því veðrið var svo gott og yndislegt í dalnum. Ég setti Esjar þá í kerruna með það í huga að hann myndi sofna. Eitthvað misreiknaði ég hann eða honum hefur fundist svo gaman að vera úti því hann sofnaði ekki og var ekki glaður í kerrunni. Við stoppuðum til að borða og hvíla okkur (enda búnar að ganga í næstum tvo tíma). Eftir það vildi Esjar ekki sjá það að vera í kerrunni! Svo ég gekk með hann á bakinu alla leiðina í gegnum Elliðaárdalinn, með tóma kerru.
Þriðja skiptið sem ég man eftir endaði ekki jafn vel. Þá vorum við Kjartan með Esjar í göngu í miðbænum í júní, Esjar bara eins mánaða gamall. Það er leiðinlegt að vera með kerru/vagn í miðbænum útaf fyrir sig. Alltaf þarf að lyfta upp þrep til að komast inn í búðir og halda hurðum opnum. Við ætluðum bara að vera stutt því hvorki ég né Esjar höfðum mikið þol fyrir snatt og stúss. Við gengum niður Laugaveginn en ákváðum aðeins of neðarlega að snúa við og enduðum á því að hlaupa síðasta spölinn með grátandi barn í vagni. Alls ekki skemmtileg reynsla. Ef hann hefði verið í sjali hefði hann líklega ekki verið jafn órólegur og líklega hefði ég getað gefið honum að drekka - í sjalinu. 

Að hvaða leyti eru burðargræjur eru betri en kerrur?

  • Þær komast meira en kerru (þrep, þungar hurðir, grjót, þúfur)
  • Barnið er nálægt þeim sem ber það og líður því oftast betur
  • Þær taka minna pláss í bíl eða ferðatösku
  • Tvær hendur frjálsar
  • Mun þægilegra að fara um í margmenni (hönnunarhátíð í Hörpunni)
Núna fer ég hvergi án þess að hafa burðarpokann okkar með. Þegar við förum til útlanda í sumar tökum við burðargræjurnar með en skiljum kerruna eftir heima.
Við notuðum teygjanlegt sjal til fjögurra mánaða og fengum þá Ergo sem er formaður burðarpoki. Hann hefur verið í stanslausri notkun síðan. Nýlega keypti ég rebozo sem er stutt ofið mexíkóskt sjal sem við erum að æfa okkur á og við bíðum eftir langa ofna sjalinu (5,2 m) sem ruglaðist í pósti í Ameríku.
Esjar í teygjanlegu sjali fjögurra mánaða.

Teygjanleg sjöl eru yndisleg fyrstu mánuðina og fást t.d. á þessum stöðum: Tvö LífHönd í hönd, Móðir Kona Meyja. Frábær sængurgjöf!
Hér eru góðar leiðbeiningar fyrir bindingar á teygjanlegu sjali. 
Þegar börnin þyngjast þarf meiri stuðning til að bera þau og má þá nota formaða burðarpoka, mei tai eða ofin sjöl. Allt þetta og fullt af upplýsingum fást hjá Soffíu hjá Hönd í hönd. Athugið að ekki er mælt með burðargræjum sem leyfa barni að snúa fram (t.d. BabyBjörn).

Það er ekki of seint að byrja að bera barn sem er orðið eins, jafnvel tveggja ára! Formaðir burðarpokar þola u.þ.b. 20 kg og ofin sjöl meira.