Tengslauppeldi 102


Ef þú værir með ungbarnið þitt á eyðieyju og hefðir engar bækur, enga klukku og enga ráðgjafa - hvernig myndirðu hugsa um barnið þitt? Þú myndir líklega nota "móður"innsæið til að leiðbeina þér (innsæið á líka við um feður sem og aðra sem láta sér annt um ungbarn). Þú myndir gera þitt besta til að lesa í tjáningu barnsins og einbeita þér að því að læra hvernig barninu líður vel. 
Allir vilja tryggja barninu sínu hamingju í framtíðinni og gera allt sem þeir telja vera barninu fyrir bestu. Séu foreldrar í góðu andlegu jafnvægi og hafi þeir fengið gott uppeldi kemur gott tengslauppeldi þeim náttúrulega (sjá Tengslauppeldi 101). Þeir eru næmir á tilfinningar barnanna sinna, hugga þau þegar þau gráta, gefa þeim að borða þegar þau eru svöng og njóta þess að vera með þeim og að vera nálægt þeim. Flestir ala því börnin sín upp samkvæmt tengslauppeldi án þess að vita að það hafi eitthvað nafn. Hvað þá samtök, bækur, heimildarmyndir og vísindi á bak við sig líka!
Sem betur fer - og því miður - búa nýbakaðir foreldrar ekki á eyðieyju. Allt um kring eru upplýsingar um hvernig eigi að sjá um ungbörn. Hjúkrunarfræðingar og læknar, bækur og blogg, vinir og fjölskylda veita endalaus ráð um hvernig sé best að gera. Mörg þessara ráða eru góð og gagnleg en einnig eru fjölmörg sem eru úrelt og á röngum rökum reist. Þegar fólk gefur slæm ráð er það ekki viljandi gert til að hafa slæm áhrif, fólk einfaldlega veit ekki betur.
Ég hef fulla trú á því að allir foreldrar geri það sem þeir telji vera þeirra barni fyrir bestu. Því miður þýðir það ekki endilega að þeir geri það sem raunverulega er best fyrir barnið. Sumir hafa einfaldlega rangar upplýsingar og enga góða leið til að vita hvað eru réttar upplýsingar. Ég vil bæta mínum ráðum í flóruna af ráðleggingum:
  • Farðu eftir sannfæringu þinni og hlýddu ekki á ráð sem láta þér eða barninu líða illa. Kannaðu málið, kannski eru til aðrar lausnir sem henta ykkur betur.
  • Viðurkenndu að þú og fólk í kringum þig vitið ekki allt um börn og að þú hafir gott af því að kynna þér ýmislegt um þroska þeirra. (Bækurnar Árin sem enginn man, Sæunn Kjartansdóttir og Why Love Matters, Sue Gerhardt hafa kennt mér heilmikið)
  • Verðu góðum tíma með barninu og lærðu að þekkja það (ekki bara fara í gegnum daginn og "sjá um" barnið)
Því fleiri góðar samverustundir sem foreldri (eða aðrir í fjölskyldunni) eiga með barninu því nánari verða tengslin og auðveldara verður að mæta þörfum barnsins rétt. Með góðri samverustund á ég við tíma þar sem þið gerið eitthvað saman (ekki þú að lesa bók og barnið á leika á gólfinu rétt hjá). Til dæmis að lesa saman, fara í sund, leika eða bara stússa með barnið í burðarpoka. Aðalmálið er nálægðin og samveran! 
Það er ágætis breyting að fylgjast ekki með klukkunni heldur barninu. Ég hef nokkrum sinnum dottið í þá gryfju að leggja Esjar út í vagn að sofa "eftir klukkunni" og enda með því að rölta heillengi með hann glaðvakandi - bara af því að nokkra daga á undan sofnaði hann á þessum tíma! Við erum mannleg, sveigjanleg og mismunandi eftir dögum.
Reynum að fylgja meira okkar eigin straumi og gera hluti sem eru skemmtilegir og láta okkur líða vel - með fólki sem okkur finnst skemmtilegt og lætur okkur líða vel.
Prófum að búa aðeins á okkar eigin eyðieyju!

1 ummæli:

  1. Mikið er ég sammál þér elsku vinkona þó svo að ég hafi enga reynslu af uppeldi. Hann Esjar er sko virkilega heppin með foreldra! ;)

    SvaraEyða