RIE aðferðin: Hvernig ég varð rólegra og öruggara foreldri

Eitt sem er ekki algengt í foreldraheiminum á Íslandi er "uppeldisaðferða tíska". Miðað við það sem ég hef fylgst með frá Ameríku eru foreldrar mikið að spá í hvaða aðferð þeir ætli að velja fyrir barnið sitt - og nóg er í boði. Montessori, Attachment Parenting, Slow Parenting, Gentle Parenting, Waldorf og síðast en ekki síst RIE.
Ég hélt að ég vissi af flestöllu sem var í gangi í uppeldisheiminum en einhvern veginn hefur RIE farið framhjá mér þar til núna. RIE er frekar nýlega komið í umræðuna að því er mér virðist. Þó það hafi verið til heillengi þá nýlega hefur það orðið þekkt sem uppeldisaðferð sem foreldrar og fjölmiðlar tala um.
Janet Lansbury er ein helsta talskona þess í dag. Ég hafði oft heyrt nafnið hennar nefnt og tók því bara sem svo að hún væri enn einn bloggarinn um blítt uppeldi eða "gentle parenting".
Svo komst ég að því að hún skrifar um alveg sérstaka aðferð sem heitir RIE aðferðin (e. RIE philosophy/method). Þetta hefur stundum verið kallað "Mindful Parenting" eða "Respectful Parenting" sem á einnig vel við eins og þið munið eflaust sjá hér. Því meira sem ég les um RIE því heillaðari verð ég. Hún er líka með hlaðvarp þar sem hún svarar ýmsum spurningum og vangaveltum frá foreldrum sem er mjög fróðlegt.
Ég fékk tækifæri til að hlusta á Janet tala á málþingi á vegum International Play Iceland nýlega. Eftir að hafa spjallað við hana og komist að því enn betur hvað mér finnst þetta heillandi fræði fannst mér ég knúin til að skrifa um RIE og deila með ykkur, kæru íslensku foreldrar.
Þetta er eitthvað sem ég vissi ekki að vantaði í þann hafsjó upplýsinga um uppeldi sem ég hafði áður kynnt mér, en nú finnst mér þetta ómissandi!

Hvað er RIE?

RIE stendur fyrir Resources for Infant Educarers. RIE eru samtök sem stofnuð voru árið 1978 af ungbarnasérfræðingnum Mögdu Gerber og Tom Forrest M.D., sérfræðingur í taugalækningum barna. Markmið samtakanna var að bæta umönnun ungra barna og fræðslu fyrir ummönnunaraðila ungra barna.
The basis of Magda's Gerber's RIE philosophy is respect for, and trust in the baby to be an initiator, an explorer, and a self learner. Magda encouraged parents and caregivers to provide: An environment for the child that is physically safe, cognitively challenging and emotionally nurturing.

Hvernig virkar RIE?

Hér er listi yfir nokkur helstu atriði sem einkenna RIE, nánari lýsing á þeim og mínar hugleiðingar um þau. Þessi listi er ekki tæmandi en þetta eru þau atriði sem ég hef helst verið að velta fyrir mér. Ég mun örugglega skrifa framhalds pistil þar til að fara yfir það sem má bæta við.

Virðing fyrir barninu sem einstaklingi

RIE leggur áherslu á að bera virðingu fyrir barninu sem einstaklingi. Hafa það ofarlega í huga að nýfædd börn, og börn á öllum aldri, hafa tilfinningar, skynjanir og vilja. Janet lýsti þessu í bókinni sinni Elevating Child Care eins og hvernig við sjálf myndum vilja að hugsað væri um okkur ef við hefðum fengið heilablóðfall og þyrftum hjálp við alla ummönnun. Við myndum við vilja vera látin vita áður en við fengjum sprautu, værum færð til, klædd eða böðuð.
Mitt sjónarhorn
Ég held að við eigum það mörg til að gleyma að hafa börnin okkar með í ráðum um hvað er að gerast. Við þvoum þeim í framan, klæðum þau í, klæðum þau úr, færum þau til og frá án þess að segja þeim frá því hvað við ætlum að gera. Þó þau skilji ekki orðin fullkomlega fyrst þá smám saman fara þau að skilja eitt og eitt orð, finna að við berum virðingu fyrir þeim og viljum leyfa þeim að taka þátt.

Tengslamyndun í gegnum umönnun

Í framhaldi af virðingunni lítur RIE dálítið sérstökum augum á umönnunarverk svo sem bleiuskipti, bað, klæða, gefa mat og svæfa. Á þeim augnablikum ættu foreldrar að veita börnum fulla athygli og umhyggju. Tala blíðlega við þau og útskýra hvað er að gerast og líta svo á að þau séu þáttakendur í ferlinu frekar en bara litlar verur með þarfir sem þarf að sinna. Þau eru meðvituð um allt sem gerist og fær um að taka þátt, lítið til að byrja með en smám saman eykst það með aldri og hversu mikið við höfum þau með. Til dæmis segja: "Nú ætla ég að klæða þig úr þessum buxum, má ég lyfta rassinum svo ég geti tekið þær af?" Og bíða eftir svari. Jafnvel þó barnið skilji ekki nákvæmlega hvað sé verið að segja, þá eftir endurtekin skipti af blíðlegum og virðingafullum samskiptum gerir það sér grein fyrir því að það sjálft skipti máli í þessu ferli og hafi eitthvað um það að segja. Smám saman lærir barnið að hjálpa til og lyfta rassinum eða rétta fram hendina til að fara í ermi. En það gerist ekki ef barnið fær aldrei að taka þátt eða heyra af því sem er að gerast.
Mitt sjónarhorn
Ég held að það sé ansi algeng að foreldrar vilji ljúka þessum verkum af og finnist þau ekkert sérstök. Þannig leit ég oftast á það og allavega ekki sem einhver sérstök tengslamyndunar-augnablik. Nema kannski að svæfa eða baða en við fórum oft í bað saman, það var einfaldara fyrir okkur. En ég held að það sé heilmikið til í því að nota þessi umönnunarverk sem vettvang til tengslamyndunar og samskipta en það skýrist kannski líka betur með næstu atriðum.

Viðurkenna tilfinningar og tjáningu þeirra

Nýfædd börn hafa líðan og tilfinningar - og þau tjá þær. RIE segir að við eigum strax frá upphafi að viðurkenna þessar tilfinningar, tala við þau um þær og sýna þeim samkennd. Þetta á við um allar tilfinningar þær góðu og þær slæmu. Það er auðvelt að gleðjast með ungbarni sem brosir eða hlær af gleði, líklega þarf ekki að segja neinum hvernig það er gert. En erfiðara getur verið að sýna samkennd og skilning þegar barnið er reitt, pirrað eða hrætt. Þegar búið er að ganga í skugga um að öllum grunnþörfum barnsins sé uppfyllt, það sé ekki svangt, kalt eða heitt, með óhreina bleiu eða þreytt, en barnið er samt órólegt þarf það á einhvers konar annarri aðstoð að halda og kannski bara að tilfinningar þess séu viðurkenndar og þeim sýndur stuðningur. Grátur er eðlilegur hluti af tjáningu barnsins og foreldrar ættu sannarlega að vera til staðar fyrir barnið sitt, en þeir geta ekki ætlast til þess af sér að láta hann alltaf hætta strax, slíkt eru ómögulegar kröfur.
Mitt sjónarhorn
Þetta finnst mér án efa vera merkilegasti parturinn af RIE en einnig sá flóknasti. Það er þrennt sem ég vil segja um þennan hluta.
 • Í fyrsta lagi gætu foreldrar sleppt þessu atriði vegna þess þeim dettur ekki í hug að fara að ræða við ungabarnið hvernig því líður eða reyna að sýna því að þau skilji að barnið sé að upplifa erfiðar tilfinningar. Heldur einfaldlega reyna þau að laga vandamálið og hugga barnið. Reyna að finna eitthvað annað fyrir barnið að gera og dreifa þannig huganum frá vandamálinu. Þá lærir barnið ekki að það sé allt í lagi að upplifa erfiðar tilfinningar og að foreldrarnir munu hlusta og vera til staðar.
 • Í öðru lagi gætu foreldrar reynt að gera sem mest til að forðast það að barnið upplifi óþægilegar tilfinningar og dettur mér þá helst í hug foreldrar sem taka barnið með sér á klósettið frekar en að yfirgefa það (á öruggum stað nálægt) og eiga hættu á að barninu líði illa.
 • Í þriðja lagi skiptir miklu máli að foreldrið sé tilbúið í þessa "vinnu". Hún mun koma hvort sem foreldrið er tilbúið eða ekki en það er mikilvægt að hafa í huga hversu mikið foreldrið kann að þurfa að undirbúa sig eða æfa sig. Það er okkur mjög eðlislægt að vilja alltaf "laga" vanlíðan ástvina okkar, sérstaklega barnanna okkar. Það er bara ekki alltaf okkar hlutverk að laga allt. Sumt getum við ekki lagað og þá þurfum við að vera tilbúin að veita stuðning og skilning á tilfinningunum - og það getur verið mjög erfitt.
Þetta var ég ekki að vanda mig við þegar Esjar var lítill. Enda hafði aldrei neinn talað um þetta við mig eða ég lesið neitt um þetta. Mér var mjög í mun um að honum liði sem oftast vel, við svæfðum hann alltaf og liggjum enn hjá honum þegar hann sofnar. Ég tók hann örugglega með mér á klósettið svo hann væri ekki hræddur um að ég væri horfin.

Traust fyrir vali á afþreyingu og leik

RIE treystir því að börn finni sér afþreyingu við hæfi án þess að við foreldrarnir þurfum endilega að finna eitthvað handa þeim að gera eða séum að skemmta þeim. Gefum þeim öruggt og hæfilega örvandi umhverfi með einföldum hlutum til að leika með og þau munu finna sér leik við hæfi. Látum þau sjá um að læra nýja hluti og halda sér uppteknum en við skulum sitja og fylgjast með úr hæfilegri fjarlægð og bregðast við þegar þau þurfa á okkur að halda. Með því að leyfa þeim að stjórna sínum leik gefum við þeim tækifæri til að einbeita sér að því sem þau hafa mestan áhuga á hverju sinni hvort sem það séu skuggarnir í herberginu, hreyfing handanna eða næsta dót sem þau grípa í. Einnig fá þau frið til að "vinna í því" eins lengi og þau vilja og þróa þannig með sér getu til að halda athygli.
Mitt sjónarhorn
Þetta er andstætt við að rétta þeim leikföng til að skoða, hafa litríka óróa fyrir ofan rúmið, dót hangandi á kerrum og bílstólum eða að við sjálf séum meirihluta dagsins að tala við þau og leika. Þannig hafa þau nefnilega ekki val um hvað þau einbeita sér að heldur ákveðum við það fyrir þau. Þá er líka hætt við að börnin verða háð því að við sjáum þeim fyrir leik eða einhverju að gera. Auk þess hættir okkur til að stýra eða hafa áhrif á hvernig börnin leika.

Náttúruleg hreyfing

Í framhaldi af traustinu til þess að börn geri það sem hentar þeim ætti eins að leyfa þeim að þróa hreyfigetu sína náttúrulega. Til að byrja með er nóg fyrir nokkra mánaða gamalt barn að liggja á teppi á gólfinu og velta því fyrir sér hvernig hendur og fætur hreyfast, velta höfðinu til beggja hliða, horfa í allar áttir. Það er alger óþarfi að reyna að hjálpa barninu að læra að liggja á maganum, setjast upp eða byrja að skríða. Börn læra þessa virkni náttúrulega sjálf, ef við gefum þeim réttar aðstæður og tíma til að æfa sig. Réttar aðstæur eru oftast bara öruggt svæði með mjúku undirlagi og einföld leikföng.
Mitt sjónarhorn
Þetta er andstætt við að láta börn vera í ömmustól, leikgrind, hoppurólu eða göngugrind. Aðstæðum sem þau komast ekki sjálf í eða úr og eru ekki frjáls til að hreyfa sig eins og þau vilja og líkami þeirra getur. Það á líka við um að láta þau sitja áður en þau eru tilbúin og að láta þau labba áður en þau geta það (t.d. með því að halda höndunum þeirra uppi og láta þau labba). Hér er líka átt við að treysta því að barnið muni velta sér yfir á magann þegar það er tilbúið í stað þess að láta það æfa sig eins og mjög gjarnan er hvatt til.

Hvernig gerir þetta mig að rólegra foreldri?

Nú þegar annað barn er á leiðinni finn ég fyrir talsvert meiri ró gagnvart ungbarnatímabilinu eftir að ég kynntist RIE. Ég finn fyrir minni pressu til að þurfa að skemmta barninu mínu. Tengslamyndun getur farið fram í gegnum öll önnur atriði og ég get verið góð mamma þó ég taki mér stund til að lesa bók á meðan barnið leikur sér sjálft - og það mun hafa gaman af því! Ég finn öryggi í því að hugsa til þess að ég þurfi ekki endilega að hugga barnið eða láta það hætta að gráta. Auðvitað mun ég uppfylla allar grunnþarfir barnsins og sjá til þess að því líði almennt vel en ekki vera hrædd við að það upplifi erfiðleika við hæfi. Ég veit nokkurn veginn hvernig ég á að bregðast við - þó það verði ekki alltaf auðvelt.

Mér þætti mjög gaman að heyra hvað ykkur finnst um RIE og hvort þetta sé eitthvað sem þið eruð að gera nú þegar eða hvort þetta sé alveg nýtt fyrir ykkur. Endilega skrifið ummæli ef þið hafið eitthvað um þetta að segja eða hafið tillögur um eitthvað annað sem þið mynduð vilja vita meira um.


Lesið meira um RIE:


Hlustið á hlaðvarp Janet Lansbury:

Vertu viss.

Vertu örugg/ur um að þú sért að gera það besta í þinni stöðu fyrir þitt barn.

Eins og ég hef áður talað um á þessu bloggi vill fólk oft gefa manni góð ráð um uppeldi barna. Stundum óumbeðið og þá stundum óvelkomið.
Nýlega var umræða um mataræði barna í einum foreldrahóp sem ég tilheyri. Umræðan snérist aðallega um athugasemdir fólks um þær leiðir sem foreldrar velja í mataræði barnanna sinna. Eflaust geta allir foreldrar sagt sögu af atviki þar sem einhver  hafði eitthvað til málanna að leggja varðandi þetta mikilvæga málefni. Helst bar þá að nefna dæmisögur af góðviljuðum ættingjum sem vildu ólmir fá að gefa ungu barni sætindi eða aðra góðviljaða ættingja sem sáu tilefni til að gefa sitt álit á brjóstagjöfinni. Bæði eru þetta málefni sem foreldrar vilja alls ekki klúðra svo skiljanlega er erfitt að sæta gagnrýni um hvoru tveggja.

Ég er ekki mikið frábrugðin öðrum foreldrum og hef því alveg fengið minn skammt af góðfúslega gefnum ráðum. Ekki bara um mataræði! Svefn, klæðnaður, snuðnotkun, hversu mikið er haldið á börnum. Sum voru gagnleg, önnur fyndin (því þau voru svo úrelt) en sum hafa verið aðeins særandi.

Það sem ég hef þó áttað mig á er þetta: 

 • ég get ekki komið í veg fyrir að fólk hafi og segi sína skoðun
 • ég ræð hvernig ég bregst við þeim
 • ég get reynt að veita viðkomandi fræðslu og úskýringu á mínu vali (sé þetta einhver nákominn og athugasemdin veitt í vinsemd)
 • ég get verið upplýst og viss um að ég hafi valið bestu leiðina fyrir okkur
 • ég get verið örugg með þá leið sem ég hef valið
Síðustu tvo punktana tel ég vera mikilvægasta. Ekki samt misskilja þá sem svo að ég hafi alltaf rétt fyrir mér og að ég muni ekki breyta um skoðun. Síður en svo.
Ég á við að ég hafi lesið mér til um og fullvissað mig um að það sem ég geri sé gott og rétt, eftir heimildum sem ég treysti. "Af því að mamma/amma/langamma gerði þetta svona og það fór vel." eða "Svona er þetta bara gert." tel ég ekki vera góð rökfærsla.
Því næst er að hafa öryggið til að fylgja því sem ég tel best þó svo einhverju finnist það ekki ákjósanlegast.
Síðan vil ég ráðleggja öllum sem lesa að spyrja af einlægni um hætti foreldra. Maður veit aldrei hvað á undan hefur látið hjá fjölskyldunni eða hvaða (mögulega frábæru) heimildir þau hafa fyrir sínu vali.

Hvaða heimildum treysti ég?

Fyrir þá sem þekkja mig eða hafa lesið bloggið mitt er svarið kannski augljóst. Fræðibækur, greinar og blogg skrifaðar í anda tengslauppeldis eru helstu heimildir sem ég leita til og treysti.
Einnig á ég góða vini, foreldra sem ég lít upp til, sem eru góðar fyrirmyndir, stuðningur og ráðgjafar.

Það getur verið erfitt að synda á móti straumnum. En straumarnir eru margir svo það er eins gott að maður fái sér bara froskalappir og sundgleraugu til að hjálpa sér að synda í rétta átt!

Bókarýni: How Eskimos Keep Their Babies Warm. Mei-Ling Hopgood.

Nú hef ég lesið nokkrar foreldrabækur og langar að segja ykkur frá þeim. Einni í einu til að gera það yfirstíganlegra og einfaldara.
Ég ætla að byrja á bókinni How Eskimos Keep Their Babies Warm af því að hún er í pínulitlu uppáhaldi hjá mér.
Höfundur bókarinnar, Mei-Ling Hopgood er bandarísk, ætleidd frá Kína. Hún er blaðamaður, hefur ferðast mikið um heiminn og hefur myndað sterk tengsl við upprunaland sitt. Þegar hún eignaðist dóttur sína rifjuðust upp fyrir henni hinir ýmsu siðir sem tengjast barneignum og uppeldi sem hún hafði orðið vitni að á ferðalögum sínum. Hún bar þá saman við það sem hún þekkti vel frá Bandaríkjunum og Kína og úr varð þessi áhugaverði samanburður.

Í bókinni eru 11 kaflar. Hver þeirra fjallar um eitt atriði og oftast einblínt á menningu og siði í einu landi í einu. Sem dæmi má nefna, mataræði barna í Frakklandi, svefnvenjur á Spáni og bleiuleysi í Kína.
Hún segir frá sinni eigin reynslu (og tilraunum) með dóttur sína á einlægan og mannlegan hátt. Einnig kannar hún sögu, mannfræði og vísindi tengt hverju málefni svo bókin er mjög fróðleg.

Þegar ég les um allar þessar mismunandi leiðir til að hugsa um börn í hinum ýmsu samfélögum get ég ekki annað en hugsað: Auðvitað, okkar leið er ekkert sú eina rétta! Það er bara svona sem við erum vön að gera þetta. Kannski er miklu sniðugara að gera eins og Frakkarnir/Spánverjarnir/Kínverjarnir. Ýmislegt hvatti mig til að endurskoða hvernig ég hugsa um hlutina og prófa aðrar nálganir.

Þessi bók er skemmtilegasta foreldrabók sem ég hef lesið.


Ef þið hafið áhuga á að lesa hana fæst hún á amazon.com. Þannig er hægt að lesa í kindle eða á snjallsíma/spjaldtölvu eða fartölvu með því að sækja kindle forrit frítt.

Lykillinn að farsælli brjóstagjöf

Kæra ólétta vinkona.
Á meðgöngunni eru milljón hlutir sem veltast í höfði þér varðandi barnið og allt sem því tengist. Eitt af þeim er örugglega brjóstagjöf. Ef þú ert að lesa þetta ertu að öllum líkindum íslensk og munt því líklega vilja hafa barn þitt á brjósti þar sem hlutfall kvenna sem byrja brjóstagjöf er í kringum 99% á Íslandi *klapp á bakið íslenskar konur*. Ég vil aðeins deila með þér þeim atriðum sem eru almennt talin stuðla að farsælli brjóstagjöf og reyndist mér vel.

Númer eitt: Þekking

Að vita við hverju er að búast tel ég vera gríðarlega mikilvægt. Bíómyndarhugmyndin af brjóstagjöf þar sem konan tekur barnið nýfætt og heldur því í fangi sér meðan það gúlpar ofan í sig brjóstamjólk segir ekki alveg alla söguna. Því meira sem þú veist um eðlilegan framgang brjóstagjafar og hvar hjálp er að finna, þeim mun líklegra er að ykkur gangi vel. Ég fór á námskeið hjá Björkinni sem heitir Brjóstagjöf og umönnun nýbura. Ég er viss um að þar var grunnurinn lagður að þeirri góðu brjóstagjöf sem við Esjar höfum notið. 
Hér er bæklingur heilsugæslunnar um brjóstagjöf með fullt af góðum upplýsingum.

Númer tvö: Hugarfar

Eitt af því sem ég tók með mér heim af námskeiðinu var: Hugarfar skiptir öllu máli. Vera jákvæð og bjartsýn. Hugsa bara allan daginn: 
Þetta mun ganga vel, ég er með fullt af mjólk, við getum þetta 

Númer þrjú: Aðstoð

Ef það gengur illa eða þú ert ekki viss um að þið séuð að gera rétt  - fáðu aðstoð. Ég hringdi bjöllunni í hvert einasta skipti sem ég gaf Esjari á Hreiðrinu og bað ljósmóður að fylgjast með og leiðbeina. Ég get ekki sagt að ég hafi alltaf fengið sömu leiðbeiningarnar en þó hjálpaði heilmikið að fá þær inn og heyra hvað þær höfðu að segja. Við vorum síðan svo "heppin" að Esjar fékk gulu og við lögðumst inn í tvær nætur þegar hann var þriggja daga gamall. Þá tók á móti okkur ljósmóðir sem var brjóstagjafaráðgjafi og hún tók okkur í gegn og lagaði það sem upp á vantaði.
Brjóstagjafaráðgjafar eru starfandi á sumum heilsugæslum og svo veitir Ingibjörg ráðgjöf á einkastofu sinni í Lygnu
Komdu í hópinn Stuðningskonur við brjóstagjöf á facebook. Þar er fullt af yndislegum konum sem vilja ekkert meira en að þér gangi vel með brjóstagjöf. 

Númer fjögur: Hvíld og næring

Það er ekki að ástæðulausu að tönglast er á þessu við nýbakaðar mæður. Líkaminn á auðveldast með að framleiða mjólk ef hann fær hvíld, góða næringu og nóg af vatni. Þannig að, hvíldu þig með barninu eins og þú getur, borðaðu hollan mat og drekktu vatn þegar þú ert þyrst.

Númer fimm: Ekkert stress

Lágmarka ætti stress/streitu eins og hægt er. Nú er mismunandi hvað veldur streitu hjá fólki en nokkuð algengt er þetta týpíska daglegar áreiti; þvottur, þrif, tiltekt, krefjandi gestir ;) Mamman á því að fá frið til að liggja með tásur upp í loft og hugsa um mjólk að fossa úr brjóstunum sínum!

Gangi þér vel!Skrifað í tilefni Brjóstagjafavikunnar á Íslandi, september 2013

Ef ég væri dagmamma...

...myndi ég:
 • hafa á stefnuskrá: tengslauppeldi, frjálsan leik, borða sjálf og náttúra
 • hafa vefmyndavél svo foreldrar gætu fylgst með krílunum sínum úr vinnunni
 • ENGAR skammir, flengingar, hótanir eða refsingar
 • vera með þátttökuaðlögun
 • hafa hvorki sjónvarp né tölvu í þeirra (barnanna) svæði
 • hafa ekkert "ó-ó" á þeirra svæði
 • gera raunhæfar væntingar til tilfinninga þeirra
 • taka blíðlega á skapofsaköstum
 • bera þau í burðarpoka
 • lesa fyrir þau
 • elda hollan og framandi mat fyrir þau
 • syngja með þeim
 • leyfa þeim að leika með hljóðfæri
 • sýna þeim jóga og dans
 • sýna þeim flugur og orma
 • mála þau í framan
 • gera tásu- og handamálverk
 • leyfa þeim að leika með búninga og hatta
 • hafa frekar fá leikföng og skipta þeim út, "rótera"
 • halda áreiti í lágmarki (hávaða og sjónrænu)
 • vera með drullueldhús í garðinum
 • biðja um myndir af fjölskyldum þeirra til að hafa á veggjum
 • bjóða í fjölskyldumorgunmat nokkrum sinnum á ári
 • halda sumarhátíð fyrir fjölskyldur þeirra

Það hlýtur að vera gaman að vera dagforeldri!

Hvað finnst þér að "drauma dagmamma" ætti að gera/hafa?

Er hann ekki "vær og góður"?

Æj þessi spurning. Er ekkert annað hægt að spyrja nýbakað foreldra? Börn "eiga" ekki endilega að vera fullkomlega vær og góð alltaf. Auðvitað er gaman þegar gengur mjög vel. Þegar barn og foreldri smella frábærlega saman og læra fljótt hvort inn á annað. En allt hitt er líka alveg eðlilegt. Hér eru upplýsingar af tveimur glærum frá barnalækninum Sigurði Þorgrímssyni um "Algeng vandamál á fyrsta ári."

Óværð ungbarna

 • Heilbrigð og eðlileg börn gráta
 • Grátur er hluti af eðlilegri hegðun
 • Ung börn gráta af ýmsum ástæðum:
  • vantar athygli
  • eru svöng
  • líður illa
  • finna til
 • Óværð er ein algengasta kvörtun foreldra vegna ungbarna á fyrstu vikum og mánuðum
 • Veldur oft kvíða [hjá foreldrum] og leiðir til óæskilegra breytinga á umönnun barna
 • Leiðir einnig til vafasamra rannsókna sjúkdómsgreininga og meðferða [óhefðbundnar lækningar eins og hómópatía og höfuðbeina- og spjaldhryggjöfnun]
 • Mikill kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið
 • Líkamleg vandamál skýra sennilega innan við 5%.
Þarna slær hann á þá hugmynd að öll börn eigi að vera "vær og góð". Að vera ungbarn er heilmikil og krefjandi vinna og ekki skrýtið að stundum gangi aðeins illa. Foreldrar þurfa líka tíma til að jafna sig á fæðingunni/meðgöngunni og finna sig í nýja ábyrgðarfulla hlutverkinu. Oft leitar fólk þó frekar líkamlegra skýringa þó þær séu eins óalgengar og innan við 5%. Ég vildi að ég myndi oftar heyra fólk segja við nýbakaða foreldra "líður honum ekki bara best hjá mömmu sinni/pabba sínum?" t.d. þegar barn kvartar í fangi ókunnugra heldur en "er maginn að angra hann?".

Síðustu dagarnir fyrir settan dag

"Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 

Ég var sett á þriðjudaginn 8. maí. 
Á mánudeginum fékk ég samdráttahrinu og var ég viss um að nú væri ég að fara af stað. Við bættum í spítalatöskuna það sem upp á vantaði. Ég hringdi upp á Hreiður og lét vita að ég væri líklega að fara af stað og þær sögðu mér að fá mér að borða og koma þegar verkirnir væru orðnir veri og styttra á milli. Ég vildi borða Á næstu grösum en Klapparstígurinn var lokaður vegna framkvæmda. Við enduðum þá á Nings í staðinn. Við vildum ekkert hringja í fjölskylduna fyrr en við værum komin upp á spítala en önnur mamman hringdi svo þá létum við hina vita. Á meðan við sátum og borðuðum orkuríkan kínverskan mat fækkaði samdráttunum og úr varð að við keyrðum aftur heim. Pínu vonsvikin, ég neita því ekki.
Einn dagur í settan dag. "Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 
Á þriðjudag mættum við í 40. vikna skoðun hjá ljósmóður. Ég vonaði innilega að hún myndi gera einhver töfrabrögð og senda okkur upp á fæðingardeild. Skoðunin kom vel út en henni fannst ég ekki nógu "fæðingarleg". Hún sagði að það sæist oft vel á konum. Stundum kemur af þeim sérstök lykt. Kjartan kannaðist ekki við neina sérstaka lykt. Hún sagði að ég myndi líklega eiga á fimmtudegi. Jæja, heim fórum við aftur nú til að googla "ways to induce labor".
Settur dagur. "Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 
Miðvikudagur leið með óþreyjufullu hangsi í tölvunni, kröftugum göngutúr, skoðandi uppskriftir að sterkum mat, raða barnafötum í skúffur og annarri hreiðurgerð. Fékk nokkur skilaboð með: Hvernig gengur? Engir verkir? Ekkert að gerast?
Einn dagur framyfir. "Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 
Það var ekki fyrr en á fimmtudag þegar ég var viss um að barnið kæmi ekki þann daginn að ég hugsaði: "ég þyrfti kannski frekar bara að slappa af." Ég lagðist inn í rúm, horfði á Modern Family og borðaði súkkulaði. Ég var eflaust búin að koma mér fyrir í svaka huggulegri stöðu, með einn kodda undir bumbunni, annan milli læranna, tvo undir höfði og öxlum og ýmislegt annað sem ég hef fundið til að liða vel. 

Svo mikil varð afslöppunin að ég sótti mér ekki vatn sjálf. 
Fimmtudagskvöld, tveir dagar framyfir.
Eftir miðnætti fann ég aukna samdrætti (af hverju var ég ekki farin að sofa!?). Nú grunaði mig að eitthvað gæti farið af stað.
Tveir dagar framyfir. "Núna er þetta að gerast, ég verð að fara að sofa". 
Föstudag, klukkan 5:20 vaknaði ég við verki. Hringdi fljótlega upp í Hreiður þar sem mér var ráðlagt að taka verkjalyf og fara í bað. Sem ég gerði og vildi helst ekkert koma úr baðinu. Eitthvað þurfti ég þó að borða en ekkert var til svo Kjartan skaust í Nóatún að kaupa orkuríkan mat. Eggjahræra, prótínstykki, powerade var það sem ég náði að koma niður að einhverju leyti áður en verkirnir nálguðust að vera óbærilegir. Þá, um níu leytið, keyrðum við upp á spítala. Ekki hefði mátt seinna vera því ég var komin með 7-8 í útvíkkun þegar ljósmóðir skoðaði mig. Kjartan sagði: "var ég bara í Nóatún og þú með 8 í útvíkkun?!"
Innan skamms var ég komin í fæðingarlaug með glaðloft í túbu að vinna í gegnum hríðirnar. Drengur fæddist klukkan 13.25. Fæðingarsaga kemur seinna ;)

Kæra vinkona, ef þú ert á síðustu dögunum fyrir settan dag vil ég segja þér...

...slappaðu af. Það verður nóg að gera næstu daga. Barnið kemur. Fæðingin verður ótrúleg og líklega dásamleg. Slökktu á facebook. Lestu um fyrstu dagana eftir fæðingu. Láttu dekra við þig. Láttu þig dagdreyma með góðri tónlist. Farðu í bað. Drekktu vatn. Talaðu við barnið þitt. Skrifaðu dagbók. Andaðu. 
Gangi þér rosalega vel, þetta verður yndislegt.