Er hann ekki "vær og góður"?

Æj þessi spurning. Er ekkert annað hægt að spyrja nýbakað foreldra? Börn "eiga" ekki endilega að vera fullkomlega vær og góð alltaf. Auðvitað er gaman þegar gengur mjög vel. Þegar barn og foreldri smella frábærlega saman og læra fljótt hvort inn á annað. En allt hitt er líka alveg eðlilegt. Hér eru upplýsingar af tveimur glærum frá barnalækninum Sigurði Þorgrímssyni um "Algeng vandamál á fyrsta ári."

Óværð ungbarna

  • Heilbrigð og eðlileg börn gráta
  • Grátur er hluti af eðlilegri hegðun
  • Ung börn gráta af ýmsum ástæðum:
    • vantar athygli
    • eru svöng
    • líður illa
    • finna til
  • Óværð er ein algengasta kvörtun foreldra vegna ungbarna á fyrstu vikum og mánuðum
  • Veldur oft kvíða [hjá foreldrum] og leiðir til óæskilegra breytinga á umönnun barna
  • Leiðir einnig til vafasamra rannsókna sjúkdómsgreininga og meðferða [óhefðbundnar lækningar eins og hómópatía og höfuðbeina- og spjaldhryggjöfnun]
  • Mikill kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið
  • Líkamleg vandamál skýra sennilega innan við 5%.
Þarna slær hann á þá hugmynd að öll börn eigi að vera "vær og góð". Að vera ungbarn er heilmikil og krefjandi vinna og ekki skrýtið að stundum gangi aðeins illa. Foreldrar þurfa líka tíma til að jafna sig á fæðingunni/meðgöngunni og finna sig í nýja ábyrgðarfulla hlutverkinu. Oft leitar fólk þó frekar líkamlegra skýringa þó þær séu eins óalgengar og innan við 5%. Ég vildi að ég myndi oftar heyra fólk segja við nýbakaða foreldra "líður honum ekki bara best hjá mömmu sinni/pabba sínum?" t.d. þegar barn kvartar í fangi ókunnugra heldur en "er maginn að angra hann?".