Vertu örugg/ur um að þú sért að gera það besta í þinni stöðu fyrir þitt barn.
Eins og ég hef áður talað um á þessu bloggi vill fólk oft gefa manni góð ráð um uppeldi barna. Stundum óumbeðið og þá stundum óvelkomið.
Nýlega var umræða um mataræði barna í einum foreldrahóp sem ég tilheyri. Umræðan snérist aðallega um athugasemdir fólks um þær leiðir sem foreldrar velja í mataræði barnanna sinna. Eflaust geta allir foreldrar sagt sögu af atviki þar sem einhver hafði eitthvað til málanna að leggja varðandi þetta mikilvæga málefni. Helst bar þá að nefna dæmisögur af góðviljuðum ættingjum sem vildu ólmir fá að gefa ungu barni sætindi eða aðra góðviljaða ættingja sem sáu tilefni til að gefa sitt álit á brjóstagjöfinni. Bæði eru þetta málefni sem foreldrar vilja alls ekki klúðra svo skiljanlega er erfitt að sæta gagnrýni um hvoru tveggja.
Ég er ekki mikið frábrugðin öðrum foreldrum og hef því alveg fengið minn skammt af góðfúslega gefnum ráðum. Ekki bara um mataræði! Svefn, klæðnaður, snuðnotkun, hversu mikið er haldið á börnum. Sum voru gagnleg, önnur fyndin (því þau voru svo úrelt) en sum hafa verið aðeins særandi.
Það sem ég hef þó áttað mig á er þetta:
- ég get ekki komið í veg fyrir að fólk hafi og segi sína skoðun
- ég ræð hvernig ég bregst við þeim
- ég get reynt að veita viðkomandi fræðslu og úskýringu á mínu vali (sé þetta einhver nákominn og athugasemdin veitt í vinsemd)
- ég get verið upplýst og viss um að ég hafi valið bestu leiðina fyrir okkur
- ég get verið örugg með þá leið sem ég hef valið
Ég á við að ég hafi lesið mér til um og fullvissað mig um að það sem ég geri sé gott og rétt, eftir heimildum sem ég treysti. "Af því að mamma/amma/langamma gerði þetta svona og það fór vel." eða "Svona er þetta bara gert." tel ég ekki vera góð rökfærsla.
Því næst er að hafa öryggið til að fylgja því sem ég tel best þó svo einhverju finnist það ekki ákjósanlegast.
Síðan vil ég ráðleggja öllum sem lesa að spyrja af einlægni um hætti foreldra. Maður veit aldrei hvað á undan hefur látið hjá fjölskyldunni eða hvaða (mögulega frábæru) heimildir þau hafa fyrir sínu vali.
Hvaða heimildum treysti ég?
Fyrir þá sem þekkja mig eða hafa lesið bloggið mitt er svarið kannski augljóst. Fræðibækur, greinar og blogg skrifaðar í anda tengslauppeldis eru helstu heimildir sem ég leita til og treysti.Einnig á ég góða vini, foreldra sem ég lít upp til, sem eru góðar fyrirmyndir, stuðningur og ráðgjafar.
Það getur verið erfitt að synda á móti straumnum. En straumarnir eru margir svo það er eins gott að maður fái sér bara froskalappir og sundgleraugu til að hjálpa sér að synda í rétta átt!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli