Síðustu dagarnir fyrir settan dag

"Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 

Ég var sett á þriðjudaginn 8. maí. 
Á mánudeginum fékk ég samdráttahrinu og var ég viss um að nú væri ég að fara af stað. Við bættum í spítalatöskuna það sem upp á vantaði. Ég hringdi upp á Hreiður og lét vita að ég væri líklega að fara af stað og þær sögðu mér að fá mér að borða og koma þegar verkirnir væru orðnir veri og styttra á milli. Ég vildi borða Á næstu grösum en Klapparstígurinn var lokaður vegna framkvæmda. Við enduðum þá á Nings í staðinn. Við vildum ekkert hringja í fjölskylduna fyrr en við værum komin upp á spítala en önnur mamman hringdi svo þá létum við hina vita. Á meðan við sátum og borðuðum orkuríkan kínverskan mat fækkaði samdráttunum og úr varð að við keyrðum aftur heim. Pínu vonsvikin, ég neita því ekki.
Einn dagur í settan dag. "Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 
Á þriðjudag mættum við í 40. vikna skoðun hjá ljósmóður. Ég vonaði innilega að hún myndi gera einhver töfrabrögð og senda okkur upp á fæðingardeild. Skoðunin kom vel út en henni fannst ég ekki nógu "fæðingarleg". Hún sagði að það sæist oft vel á konum. Stundum kemur af þeim sérstök lykt. Kjartan kannaðist ekki við neina sérstaka lykt. Hún sagði að ég myndi líklega eiga á fimmtudegi. Jæja, heim fórum við aftur nú til að googla "ways to induce labor".
Settur dagur. "Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 
Miðvikudagur leið með óþreyjufullu hangsi í tölvunni, kröftugum göngutúr, skoðandi uppskriftir að sterkum mat, raða barnafötum í skúffur og annarri hreiðurgerð. Fékk nokkur skilaboð með: Hvernig gengur? Engir verkir? Ekkert að gerast?
Einn dagur framyfir. "Jæja núúna má þetta alveg fara að gerast" 
Það var ekki fyrr en á fimmtudag þegar ég var viss um að barnið kæmi ekki þann daginn að ég hugsaði: "ég þyrfti kannski frekar bara að slappa af." Ég lagðist inn í rúm, horfði á Modern Family og borðaði súkkulaði. Ég var eflaust búin að koma mér fyrir í svaka huggulegri stöðu, með einn kodda undir bumbunni, annan milli læranna, tvo undir höfði og öxlum og ýmislegt annað sem ég hef fundið til að liða vel. 

Svo mikil varð afslöppunin að ég sótti mér ekki vatn sjálf. 
Fimmtudagskvöld, tveir dagar framyfir.
Eftir miðnætti fann ég aukna samdrætti (af hverju var ég ekki farin að sofa!?). Nú grunaði mig að eitthvað gæti farið af stað.
Tveir dagar framyfir. "Núna er þetta að gerast, ég verð að fara að sofa". 
Föstudag, klukkan 5:20 vaknaði ég við verki. Hringdi fljótlega upp í Hreiður þar sem mér var ráðlagt að taka verkjalyf og fara í bað. Sem ég gerði og vildi helst ekkert koma úr baðinu. Eitthvað þurfti ég þó að borða en ekkert var til svo Kjartan skaust í Nóatún að kaupa orkuríkan mat. Eggjahræra, prótínstykki, powerade var það sem ég náði að koma niður að einhverju leyti áður en verkirnir nálguðust að vera óbærilegir. Þá, um níu leytið, keyrðum við upp á spítala. Ekki hefði mátt seinna vera því ég var komin með 7-8 í útvíkkun þegar ljósmóðir skoðaði mig. Kjartan sagði: "var ég bara í Nóatún og þú með 8 í útvíkkun?!"
Innan skamms var ég komin í fæðingarlaug með glaðloft í túbu að vinna í gegnum hríðirnar. Drengur fæddist klukkan 13.25. Fæðingarsaga kemur seinna ;)

Kæra vinkona, ef þú ert á síðustu dögunum fyrir settan dag vil ég segja þér...

...slappaðu af. Það verður nóg að gera næstu daga. Barnið kemur. Fæðingin verður ótrúleg og líklega dásamleg. Slökktu á facebook. Lestu um fyrstu dagana eftir fæðingu. Láttu dekra við þig. Láttu þig dagdreyma með góðri tónlist. Farðu í bað. Drekktu vatn. Talaðu við barnið þitt. Skrifaðu dagbók. Andaðu. 
Gangi þér rosalega vel, þetta verður yndislegt.

Burðargræjur trompa alltaf kerruna


Margir myndu segja að þeir gætu ekki verið án kerru en ég ætla að gerast svo djörf að segja að við gætum það - með burðargræjum. Við höfum verið kerrulaus í rúmlega mánuð núna. Ég hef ekki einu sinni saknað kerrunnar.
Ég man reyndar ekki eftir neinu skipti þar sem ég hef sleppt því að taka kerruna og saknað hennar. Hinsvegar hafa komið nokkur skipti þar sem ég tók kerruna og sá eftir því!
Eitt skiptið var Esjar örugglega fjögurra mánaða og ég fór með hann í Smáralind. Eftir að hafa farið í nokkrar búðir og setið í smástund á kaffihúsi var hann orðinn þreyttur. Ég gaf honum að drekka, skipti á honum og setti hann aftur í kerruna. "Ónei takk mamma - hér vil ég ekki vera! Ég er þreyttur og vil vera hjá þér!" Bíllinn var því miður lagður í hinum endanum svo það var alveg smástund áður en við kæmumst þangað. Sem betur fer var ég með teygjanlega sjalið með mér. Ég náði að binda það í flýti með þreytt, grátandi barn í kerru og áður en ég (og allt kaffihúsið) vissi af hafði hann róast og leið miklu betur þéttvafinn framan á mömmu sinni. Hann sofnaði fljótlega og ég gekk yfir alla Smáralind með tóma kerru .
Annað skiptið var frekar nýlega, áður en ég "lagði" kerrunni, Esjar um það bil tíu mánaða. Ég var ásamt hópi mæðra á leið í útileikfimi í Elliðaárdalnum. Ég hafði hugsað mér að ganga með hann á bakinu og skilja kerruna eftir. Samt hugsaði ég að hann gæti kannski sofnað og þá væri gott að leggja hann niður svo ég tók kerruna með. Það gekk mjög vel að ganga með hann á bakinu og honum fannst þetta skemmtilegt. Við gengum í smástund og stoppuðum svo til að gera nokkrar æfingar, sipp, armbeygjur og slíkt. Ég setti Esjar í grasið á teppi þar sem hann sat og lék sér og borðaði Cheerios. Hin börnin urðu smátt og smátt leið á því að liggja í vögnum/kerrum og bættust í hópinn á grasið. Þar sátu þau og skiptust á nesti og stútkönnum :) Að æfingum loknum fóru öll börn aftur í farartækin sín en Esjar í pokann sinn á bakið á mér. Við gengum svo tilbaka, gerðum hnébeygjur á leiðinni sem Esjari fannst mjög skemmtilegt! Þegar "æfingin" var búin ákváðum ég og tvær aðrar að halda áfram að labba því veðrið var svo gott og yndislegt í dalnum. Ég setti Esjar þá í kerruna með það í huga að hann myndi sofna. Eitthvað misreiknaði ég hann eða honum hefur fundist svo gaman að vera úti því hann sofnaði ekki og var ekki glaður í kerrunni. Við stoppuðum til að borða og hvíla okkur (enda búnar að ganga í næstum tvo tíma). Eftir það vildi Esjar ekki sjá það að vera í kerrunni! Svo ég gekk með hann á bakinu alla leiðina í gegnum Elliðaárdalinn, með tóma kerru.
Þriðja skiptið sem ég man eftir endaði ekki jafn vel. Þá vorum við Kjartan með Esjar í göngu í miðbænum í júní, Esjar bara eins mánaða gamall. Það er leiðinlegt að vera með kerru/vagn í miðbænum útaf fyrir sig. Alltaf þarf að lyfta upp þrep til að komast inn í búðir og halda hurðum opnum. Við ætluðum bara að vera stutt því hvorki ég né Esjar höfðum mikið þol fyrir snatt og stúss. Við gengum niður Laugaveginn en ákváðum aðeins of neðarlega að snúa við og enduðum á því að hlaupa síðasta spölinn með grátandi barn í vagni. Alls ekki skemmtileg reynsla. Ef hann hefði verið í sjali hefði hann líklega ekki verið jafn órólegur og líklega hefði ég getað gefið honum að drekka - í sjalinu. 

Að hvaða leyti eru burðargræjur eru betri en kerrur?

  • Þær komast meira en kerru (þrep, þungar hurðir, grjót, þúfur)
  • Barnið er nálægt þeim sem ber það og líður því oftast betur
  • Þær taka minna pláss í bíl eða ferðatösku
  • Tvær hendur frjálsar
  • Mun þægilegra að fara um í margmenni (hönnunarhátíð í Hörpunni)
Núna fer ég hvergi án þess að hafa burðarpokann okkar með. Þegar við förum til útlanda í sumar tökum við burðargræjurnar með en skiljum kerruna eftir heima.
Við notuðum teygjanlegt sjal til fjögurra mánaða og fengum þá Ergo sem er formaður burðarpoki. Hann hefur verið í stanslausri notkun síðan. Nýlega keypti ég rebozo sem er stutt ofið mexíkóskt sjal sem við erum að æfa okkur á og við bíðum eftir langa ofna sjalinu (5,2 m) sem ruglaðist í pósti í Ameríku.
Esjar í teygjanlegu sjali fjögurra mánaða.

Teygjanleg sjöl eru yndisleg fyrstu mánuðina og fást t.d. á þessum stöðum: Tvö LífHönd í hönd, Móðir Kona Meyja. Frábær sængurgjöf!
Hér eru góðar leiðbeiningar fyrir bindingar á teygjanlegu sjali. 
Þegar börnin þyngjast þarf meiri stuðning til að bera þau og má þá nota formaða burðarpoka, mei tai eða ofin sjöl. Allt þetta og fullt af upplýsingum fást hjá Soffíu hjá Hönd í hönd. Athugið að ekki er mælt með burðargræjum sem leyfa barni að snúa fram (t.d. BabyBjörn).

Það er ekki of seint að byrja að bera barn sem er orðið eins, jafnvel tveggja ára! Formaðir burðarpokar þola u.þ.b. 20 kg og ofin sjöl meira.


Horfa, hinkra og hugsa


Á fyrirlestri hjá Sæunni Kjartansdóttur sálgreini um Tengsl foreldra og barna komu "frekjuköst" til umræðu, þá aðallega barna í kringum 2-4 ára aldur. Foreldrar vilja eðlilega fá ráð við hvernig bregðast megi við slíkum köstum og vil ég benda á grein Rakelar fjölskylduráðgjafa um skapofsaköst. Sæunn spurði hinsvegar hvort foreldrarnir gætu séð einhvern aðdraganda eða orsök fyrir köstunum. Hún sagði svo frá einfaldri leið til að fækka slíkum köstum. Sú aðferð nefnist Horfðu, hinkraðu og hugsaðu (eða á ensku Watch, wait and wonder) og er meðferðarúrræði til að bæta tengsl foreldra og ungra barna. Með bættum tengslum öðlast barn (og foreldri) betri líðan.
Horfðu, hinkraðu og hugsaðu
Eitt foreldri og eitt barn eyða hálftíma saman á þægilegum stað án truflana. Ekkert sjónvarp eða tölva. Barnið fær algerlega að ráða hvað er gert á þessum hálftíma og fær óskipta athygli foreldrisins á meðan. Mamman/pabbinn má ekki gera neitt annað en fylgjast með barninu (ekki prjóna eða lesa). Vera til staðar, andlega og líkamlega. Fylgjast með og læra á barnið sitt. Ef barnið vill leika við mömmu eða pabba þá er það velkomið. Þetta er gert á hverjum degi eða eins oft og mögulegt er. Hægt er að nota þessa tækni frá 6 mánaða aldri (og örugglega fyrr). Tilvalið fyrir börn og foreldra að ná saman eftir heilan dag af fjarveru hvort frá öðru. Sæunn sagði að fjölskyldur sem prófuðu þessa aðferð fundu mikinn mun. Bæði foreldrum og barni líður betur.

Það kemur mér alls ekki á óvart að þetta beri árangur. Reynsla okkar hefur sýnt að þegar við náum ekki að vera  mikið til staðar fyrir Esjar í ákveðinn tíma, kvartar hann meira. Minna má út af bregða og hann "hangir meira í okkur". Þetta eru til dæmis dagar þar sem við þurfum bæði að læra mikið og fáum jafnvel aðstoð við að passa. Eða löng veisla þar sem allir vilja leika við hann eða halda á honum. Þá er það eina sem hann þarf gæðastund með mömmu sinni eða pabba.

Ég ætla reyna að sjá til þess að Esjar fái reglulega, og eins oft og hægt er, ótruflaða samverustund með pabba sínum eða mömmu. 


Eiga ekki allir nokkra hálftíma á viku handa barninu sínu?


Sæunn Kjartansdóttir er höfundur bókarinnar Árin sem enginn man. Flestir sem lesa bókina eru mjög ánægðir að hafa lesið hana og vildu óska þess þeir hefðu lesið hana fyrr - sérstaklega ef þeir eiga eldri börn. Ég byrjaði að lesa hana þegar Esjar var minnir mig tveggja mánaða og hefði ég alveg viljað byrja fyrr. Því vil ég mæla með þessar bók fyrir alla - sérstaklega þá sem eiga von á barni!

Frekja ungra barna


Frekja hefur verið ofarlega í huga mér í dálítinn tíma. Að mínu mati er það alltof algengt að ung börn séu kölluð frek. Að mínu mati geta börn ekki verið frek fyrir þriggja ára aldur. Heili þeirra er ekki fullþroskaður.
Ég ætla að draga upp mynd af atviki sem er ekki sjaldséð í kringum börn á aldri við Esjar, eins árs, og reyna að varpa smá ljósi á tilveru barnanna.
Fjölskyldan er saman inni í stofu. Barn skríður um og skoðar heiminn. Það er orðið anski klárt í því að standa upp og labba með húsgögnum. Sófaborð eru í fullkominni hæð fyrir barn til að styðja sig við og þar leynist oft margt spennandi! Barnið nær að hífa sig upp með borðinu, labba nokkur skref áður en það nær í það allra flottasta og skemmtilegasta - fjarstýringuna! Afinn fylgist með og er ekki lengi að grípa fjarstýringuna þegar hann sér stefna í að litlir fingur nái að skipta um stöð á sjónvarpinu. Barnið hugsar þá eflaust: "Jæja, afi er nú að horfa á fótboltann, ég get ekkert verið að fikta í fjarstýringunni á meðan. Ég leik mér bara við boltann í staðinn". Ónei, allir sem hafa hitt barn á þessum aldri vita að það er ekki svo. Kannski hugsar það eitthvað meira í þessa átt "Gaaaahh hvað ertu að gera afi!? Veistu ekki hvað mér finnst þetta óóótrúlega spennandi, ég ætlaði að smakka, ýta á takkanna, lemja henni í borðið og láta hana detta á gólfið! Ég var rétt að byrja! AAaaa". 

Barnið er í miklu uppnámi yfir þessu og framleiðsla streituhormónsins kortisól hefst.
Barnið bregst við með gráti eða kvarti og grenji. 

En hvað gerist næst? Hér eru þrenn dæmi um viðbrögð:  

  • Afi: "Láttu ekki svona, þú mátt ekki leika með fjarstýringuna. Vertu ekki með þessa frekju, það er nóg af öðru dóti að leika með". Barnið heldur áfram að kvarta og baðar út höndunum í átt að fjarstýringunni. "Nei, þú mátt ekki fá hana... Börn verða nú að læra að leika sér sjálf". Barnið sest niður á gólf í óánægju sinni og heldur áfram að kvarta.
  • Fjarstýringin er tekin úr augnsýn. Ekki líkar barninu það betur - þá er engin von að ná henni aftur - grætur hærra. "Allamalla, ekki þessi læti... Allt í lagi þú mátt fá fjarstýringuna aftur". Barnið er alsælt með útkomuna.
  • "Æjæj ég skil vel að þú viljir leika með þessa fínu fjarstýringu en hún er ekki í boði. Á afi að labba með þig og sýna þér dálítið annað spennandi? Kannski er amma búin að baka og við megum fá að smakka. Komdu, kíkjum inn í eldhús". Barnið er ánægt að fá að koma í fang afa síns og er spennt að sjá hvað hann ætlar að sýna sér. Fjarstýringin gleymist fljótt og barninu líður betur

Hvernig vilt þú bregðast við barninu þínu?

  • Fyrsta barnið kemst ekki í jafnvægi og líklega versnar líðan þess. Það fær enga hjálp frá fullorðnum og framleiðsla streituhormónsins heldur áfram.
  • Annað barnið kemst í jafnvægi en fær ekki mikla hjálp frá fullorðnum til þess. Aðeins fjarstýringuna aftur.
  • Þriðja barnið kemst í gott jafnvægi með hjálp afa síns og hittir mögulega líka ömmu - þvílíkur bónus!
Eftir það sem ég hef lesið um heilaþroska barna finnst mér mikilvægt að fólk átti sig á því að barn á þessum aldri getur ekki með nokkru móti sett hluti í samhengi, áttað sig á aðstæðum og "róað sig sjálft". Barn þarf annan aðila til að gera það fyrir sig. Hvort sem orsök uppnámsins sé svengd, söknuður, sársauki eða vonbrigði yfir bannaðri fjarstýringu. Fái barn ekki góðan stuðning til að vinna úr erfiðum tilfinningum sínum fyrstu þrjú árin mun það líklega eiga erfitt með að vinna úr erfiðum aðstæðum sem fullorðinn einstaklingur. Heilinn fær ekki nægilegan þroska í að takast á við streitu og vinna úr henni á eðlilegan og rökréttan hátt. Ég mæli með bókinni Why love matters eftir Sue Gerhardt vilji fólk kynna sér heilaþroska barna og áhrif þeirra á fullorðinsárin nánar. 
Það er nauðsynlegt að taka mark á "kvarti og grenji" barna því annars læra þau að tjáning þeirra og tilfinningar skipta ekki máli og geta ekki haft áhrif. Aðeins með góðri hjálp frá sínum nánustu við að koma líðan sinni í jafnvægi lærir barnið að takast vel á við hnökra í lífinu. Það er barninu þó heldur ekki gagnlegt að koma í veg fyrir öll vonbrigði enda væri það ógerlegt. Heldur er ekki gott að gefa alltaf eftir, þó svo að þannig forðist maður "erfiðar aðstæður". Barnið lendir þá ekki í því að verða fyrir  vonbrigðum og fær ekki tækifæri til að læra að takast á við þau (með hjálp fullorðinna). Barnið verður mögulega á endanum frekt á þann hátt að mjög erfitt verði að róa það án þess að það fái sínu fram.

Hér eru mín markmið og ráðlegging:

  1. Hafa eins lítið af bönnuðum hlutum og hægt er. Nú erum við að fara að flytja og við ætlum að hafa  heimilið okkar eins og leikskóla - ekkert bannað í hæð sem Esjar og vinir hans ná til. 
  2. Ekki banna hluti af ástæðulausu. Börn hafa svo gaman af því að skoða nýja hluti og um að gera að leyfa þeim það! Esjar er hæstánægður ef hann fær að skoða snyrtidót eins og maskara, varasalvadós, bursta... Hann fær samt ekki naglaklippurnar og plokkarann.
  3. Ekki gefa eftir til að forðast átök. Þú verður að hjálpa barninu að takast á við þau vonbrigði að fá ekki það sem það vill. Dreifðu heldur athyglinni annað eða talaðu/leiktu við barnið.
  4. Taka alltaf mark á kvarti og kveini, sama hver ástæðan er. Barninu líður illa og þarf þína hjálp til að líða betur. Oft getur smá gæðastund og gott knús gert kraftaverk!