Að kaupa eða ekki kaupa


Góður verkfræðingur hannar góða brú. Frábær verkfræðingur spyr sig hvort nauðsynlegt sé að byggja brú - og finnur mögulega aðra leið sem uppfyllir þó allar kröfur notenda.
Þegar foreldrar hafa jafnað sig á fyrstu viðbrögðunum við "jákvæða strikinu" á þungunarprófinu vakna ýmsar spurningar og vangaveltur. Þurfum við stærra hús? Eigum við að breyta skrifstofunni í barnaherbergi? Hvernig vagn eigum við að kaupa... Hvað þurfum við að kaupa!?
  • "Týpíski listinn": Vagga, barnarúm, sér herbergi, barnastól, vagn, kerru, snuð, leikteppi, ömmustól, hoppuróla, göngugrind, leikgrind, ungbarnaróla, baðbali, skiptiborð, óróa, spiladós og örvandi leikföng.
  • "Léttari listinn": Vagn, mögulega skiptiborð. Til viðbótar: Burðarsjal/poka og co-sleeper (ungbarnarúm í  hjónarúm). 

Hvernig er hægt að hafa bara þessa fáu hluti?
Í staðinn fyrir vöggu og barnarúm notuðum við co-sleeper til að byrja með en síðan hefur Esjar sofið í rúminu okkar. Við höfum ekki auka herbergi en þó við hefðum það myndum við ekki nota það sem svefnherbergi fyrir hann. Barn og foreldrar finna til meira öryggis með nálægðinni.
Við settum ekki upp barnarúm fyrr en Esjar var orðinn rúmlega hálfs árs gamall. Þá var hann fyrst farinn að hreyfa sig eitthvað í svefni og vildum við ekki að hann rúllaði úr hjónarúminu. Við prófuðum nokkur kvöld að leggja hann í barnarúmið en hann kom svo upp í til okkar þegar við fórum að sofa eða þegar hann vaknaði. Mér fannst þetta ekkert þægilegt. Mér fannst vesen að þurfa að standa upp og bogra yfir rimlarúminu hálfsofandi til að ná í hann í myrkrinu. 
Flótlega varð rúmið stoppistöð fyrir hreinan þvott á leið í skápa og skúffur. Það nýtist þó vel sem framlenging við rúmið en við höfum það í sömu hæð og okkar og ein hliðin er tekin af. Esjar sefur samt alltaf á dýnunni okkar en það virkar samt aðeins stærra svona, það rúllar allavega enginn út á gólf þeim megin. 
Á tímabili sváfum við reyndar ekki vel öll saman. Ég hafði ekki nægilegt pláss til að sofa og oft  vildi ég ekki færa Esjar vegna áhyggja að hann myndi vakna. Góði verkfræðingurinn myndi þá venja barnið að sofa í sínu eigin rúmi, þó foreldrunum finnist gott að hafa barnið hjá sér. Frábæri verkfræðingurinn myndi ráðleggja kaup á nýju rúmi. Við höfum keypt stærra rúm fyrir okkur síðan hann fæddist og sofum nú öll þægilega í 180 cm breiðu rúmi.
Hér er umfjöllun um öryggisatriði sem hafa ber í huga ef ungbarn á að deila rúmi með foreldrum sínum.
Vagninn notum við daglega (frá um 5 mánaða aldri) fyrir Esjar að sofa í. Flestar íslenskar og líklega skandinavískar fjölskyldur hafa sömu sögu að segja. Börn sofa svo vel úti!
Skiptiborðið reyndist vel fyrstu mánuðina þegar þurfti að skipta ansi ört um bleiur. Þá er fínt að hafa allt á vísum stað. Um leið og börnin fara að hreyfa sig meira verða aðrir staðir hentugri til bleiuskipta. Skiptiborðið er ekki nauðsynlegt en nýttist vel fyrstu mánuðina. 
Í staðinn fyrir kerru er hægt að nota burðarpoka.
Í hvert skipti sem ég fór með Esjar í kerrunni, þá hugsaði ég "nú hefði verið gott að hafa burðarpokann" en aldrei öfugt. Ég notaði pokann alltaf þegar ég tók hann með mér út í búð þegar hann var orðinn of stór fyrir ungbarnasætið en ekki nógu stór fyrir barnasætið í búðarkerrunum. Núna hef ég ekki notað kerruna í viku og hef ekki í huga að taka hana fram aftur. Ég er líka orðin rosalega flink í að bera Esjar á bakinu en þegar börn verða þyngri er mun léttara að bera þau þar er framan á sér. Hann getur séð allt það sama og ég og hallað höfðinu á bakið mitt ef hann vill hvíld.
Við Esjar í göngutúr síðustu helgi

Í staðinn fyrir leikteppi, ömmustól, hoppurólu, göngugrind, leikgrind, ungbarnarólu, óróa, og örvandi leikföng má nota burðarpoka.
Tilgangurinn með öllum þessum græjum er að hafa öruggan stað fyrir barnið svo foreldrar geti sinnt ýmsum verkum og til að veita barninu afþreyingu og örvun. Allt þetta hefur burðarpokinn og meira til! Barnið fær heilmikla afþreyingu af því að spjalla við foreldrana og fylgjast með því sem þau eru að gera. Það þjálfar jafnvægisskyn barnsins að vera í stöðugri hreyfingu með foreldrinu sem og það æfir sig að halda höfði en á jafnframt auðvelt með að hvíla það uppvið bringuna/bakið. 
Flestum foreldrum finnst gott að halda á barninu sínu en enginn getur þó gert það allan daginn án þess að fá vöðvabólgu í axlir og bak. Góði verkfræðingurinn ráðleggur þá að venja barnið við ömmustól eða göngugrind. Foreldrarnir vildu þó gjarnan getað haft barnið nærri sér og frábæri verkfræðingurinn ráðleggur þá kaup á burðarsjali eða poka.
Með nýfætt barn er æðislegt að vera með það í teygjanlegu sjali. Þegar barnið þyngist heldur sjalið ekki nægilega vel og er þá betra að nota annaðhvort burðarpoka eða ofið sjal  sem teygjist ekki. Hægt er að skoða ýmsar burðargræjur hjá Soffíu á hondihond.is
Í staðinn fyrir baðbalann má baða barnið í sturtu eða baði með foreldrinu.
Baðbalann notuðum við tvisvar. Fyrst þegar heimaljósmóðirinn sýndi okkur hvernig á að baða nýfætt barn. Svo þegar við prófuðum að gera eins og hún hafði sýnt gekk það ansi brösulega. Fyrst var vatnið ekki nógu heitt. Svo löguðum við hitann en samt líkaði Esjari þetta ekki sérlega vel. Þá benti ein úr mömmuhópnum á að þau tækju ungann sinn með í sturtu. Við prófuðum þetta og líkaði miklu betur! Esjari leið svo vel í fanginu á mér með hlýtt vatnið streymandi yfir okkur. Þannig fengum við heilmikla húð-við-húð snertingu sem er svo mikilvæg fyrir tengslamyndun og öryggiskennd barnsins. 
Við fórum mjög nálægt því að hafa fylgt týpíska listanum. Fullt af þessu dóti fyllti dýrmætt pláss í íbúðinni okkar. Nú þegar ég lít til baka notuðum við það flest ekki mikið og hefðum auðveldlega getað sleppt því. Börnin stækka svo hratt og það væri synd að hafa þau ekki sem mest hjá manni - áður en þau fara að skríða um allt og skoða heiminn!

Minningabanki


Kannast ekki allir við það að heyra tónlist sem vekur upp minningar og tilfinningarSumarsmellir, jólalög, geisladiskur úr ferðalagi eða vinsælasta tónlistin frá unglingsárunum.
Núna sé ég að þetta er frábær leið til að skrá minningar!
Birna vinkona mín úr maí-mömmuhópnum var með þeim fyrstu í mánuðinum til að eiga. Þegar hún var komin heim með dóttur sína lýsti hún hamingjuástandinu á heimilinu sem svo að þau svifu um á bleiku skýi og með lýsingunni fylgdi lagið "Loving you" - Minnie Ripeton. Þegar hún sagði okkur í hópnum frá þessu var hann enn að mestu leyti bumbuhópur og allar biðu spenntar eftir stóru stundinni. Ég var rúmri viku frá því að eiga. Mér fannst þetta lag svo yndislegt! Ég spilaði það oft dagana á eftir meðan ég beið og lét mig dreyma um litla hnoðrann sem ég fengi von bráðar í hendurnar. Ég hlakkaði mikið til að kyssa pínulitlu iljarnar og að liggja með hann í baði.
Eftir að Esjar kom í heiminn spilaði ég lagið áfram því einhvern tímann heyrði ég að börn ættu að geta þekkt lög úr móðurkviði og fannst það rosa sniðugt - ég hafði samt enga leið til að vita hvort hann kannaðist við það. En lagið passaði líka mjög vel við stemminguna og tilfinningarnar sem voru í gangi fyrstu dagana.
Núna, næstum ári seinna, fæ ég fiðring í magann þegar ég heyri Minnie og fuglanna syngja þetta krúttlega lag. "Sumar í loftinu, lykt af nýfædda syninum, litlar tásur, lítil sæt föt í notkun, krúttleg hljóð, litlar stjórnlausar hreyfingar, veit ekkert hvaða dagur er..."
Með þessu lagi rifja ég upp tilfinningar og upplifanir sem ómögulegt er að geyma á annan hátt. Ég mæli með því að velja sér eitthvað gott lag eða tónlist sem svona minningabanka fyrir þennan einstaka tíma - þessi magafiðrildi eru yndisleg að rifja upp.
Takk aftur Birna fyrir að deila þessu yndislega lagi með okkur!

Ég ætla að endurtaka minningabankann þegar kemur að því að eignast annað barn og þá með annað lag. Ef þú veist um gott "svífandi um á bleiku skýi" lag máttu láta mig vita ;)

Tengslauppeldi 102


Ef þú værir með ungbarnið þitt á eyðieyju og hefðir engar bækur, enga klukku og enga ráðgjafa - hvernig myndirðu hugsa um barnið þitt? Þú myndir líklega nota "móður"innsæið til að leiðbeina þér (innsæið á líka við um feður sem og aðra sem láta sér annt um ungbarn). Þú myndir gera þitt besta til að lesa í tjáningu barnsins og einbeita þér að því að læra hvernig barninu líður vel. 
Allir vilja tryggja barninu sínu hamingju í framtíðinni og gera allt sem þeir telja vera barninu fyrir bestu. Séu foreldrar í góðu andlegu jafnvægi og hafi þeir fengið gott uppeldi kemur gott tengslauppeldi þeim náttúrulega (sjá Tengslauppeldi 101). Þeir eru næmir á tilfinningar barnanna sinna, hugga þau þegar þau gráta, gefa þeim að borða þegar þau eru svöng og njóta þess að vera með þeim og að vera nálægt þeim. Flestir ala því börnin sín upp samkvæmt tengslauppeldi án þess að vita að það hafi eitthvað nafn. Hvað þá samtök, bækur, heimildarmyndir og vísindi á bak við sig líka!
Sem betur fer - og því miður - búa nýbakaðir foreldrar ekki á eyðieyju. Allt um kring eru upplýsingar um hvernig eigi að sjá um ungbörn. Hjúkrunarfræðingar og læknar, bækur og blogg, vinir og fjölskylda veita endalaus ráð um hvernig sé best að gera. Mörg þessara ráða eru góð og gagnleg en einnig eru fjölmörg sem eru úrelt og á röngum rökum reist. Þegar fólk gefur slæm ráð er það ekki viljandi gert til að hafa slæm áhrif, fólk einfaldlega veit ekki betur.
Ég hef fulla trú á því að allir foreldrar geri það sem þeir telji vera þeirra barni fyrir bestu. Því miður þýðir það ekki endilega að þeir geri það sem raunverulega er best fyrir barnið. Sumir hafa einfaldlega rangar upplýsingar og enga góða leið til að vita hvað eru réttar upplýsingar. Ég vil bæta mínum ráðum í flóruna af ráðleggingum:
  • Farðu eftir sannfæringu þinni og hlýddu ekki á ráð sem láta þér eða barninu líða illa. Kannaðu málið, kannski eru til aðrar lausnir sem henta ykkur betur.
  • Viðurkenndu að þú og fólk í kringum þig vitið ekki allt um börn og að þú hafir gott af því að kynna þér ýmislegt um þroska þeirra. (Bækurnar Árin sem enginn man, Sæunn Kjartansdóttir og Why Love Matters, Sue Gerhardt hafa kennt mér heilmikið)
  • Verðu góðum tíma með barninu og lærðu að þekkja það (ekki bara fara í gegnum daginn og "sjá um" barnið)
Því fleiri góðar samverustundir sem foreldri (eða aðrir í fjölskyldunni) eiga með barninu því nánari verða tengslin og auðveldara verður að mæta þörfum barnsins rétt. Með góðri samverustund á ég við tíma þar sem þið gerið eitthvað saman (ekki þú að lesa bók og barnið á leika á gólfinu rétt hjá). Til dæmis að lesa saman, fara í sund, leika eða bara stússa með barnið í burðarpoka. Aðalmálið er nálægðin og samveran! 
Það er ágætis breyting að fylgjast ekki með klukkunni heldur barninu. Ég hef nokkrum sinnum dottið í þá gryfju að leggja Esjar út í vagn að sofa "eftir klukkunni" og enda með því að rölta heillengi með hann glaðvakandi - bara af því að nokkra daga á undan sofnaði hann á þessum tíma! Við erum mannleg, sveigjanleg og mismunandi eftir dögum.
Reynum að fylgja meira okkar eigin straumi og gera hluti sem eru skemmtilegir og láta okkur líða vel - með fólki sem okkur finnst skemmtilegt og lætur okkur líða vel.
Prófum að búa aðeins á okkar eigin eyðieyju!

Hvernig á ég að gefa barninu mínu að borða?

Flestir nýjir foreldrar pæla mikið í því hvað eigi að gefa barninu að borða og hvenær sé rétti tíminn til að byrja. Hvenær má barnið fá hafragraut eða skyr? Verð ég að gefa grænmeti fyrst áður en hún smakkar ávexti? Er banani of stemmandi? Hvaða grautur er bestur?
En fáir pæla í því hvernig sé best að gera það. Hugmyndin sem flestir hafa af ungbörnum er sú að þau séu ófær um að borða sjálf og þau verði að mata með skeið. Þetta er nefnilega ekki alveg rétt. Nokkurra mánaða gömul börn geta haldið vel á ýmsum hlutum svo sem sokkunum sínum, taubleium, snuði og dóti. Það vita allir að þau stinga öllu upp í sig. Af  hverju ættu þau þá ekki að geta set mat upp í sig líka? Þau geta það vel - og hafa gaman af því! Þegar ég var ólétt keypti ég góðan blandara og ætlaði heldur betur að gera mitt eigið barnamauk. Esjar er núna að nálgast eins árs og hefur aldrei fengið mat úr þessum blandara. Þá hafði ég aldrei heyrt um BLW en það hefur reynst okkur rosalega vel.
Baby Led Weaning (BLW) eða Barnið borðar sjálft er aðferð til að kynna mat fyrir ungbörnum þannig að þau sjálf ráða ferðinni. "The baby leads the way." Þegar barn er fært um að sitja upprétt sjálft er það tilbúið til að prófa sig áfram með mat. Til að byrja með kynnist barnið nýjum áferðum og bragði án þess endilega að innbyrða mjög mikið. Smám saman lærir barnið að bíta af, tyggja og kyngja. Barninu er boðið nokkrar tegundir af fæðu í einu svo það geti sjálft valið hvað það vill borða. Mikilvægt er að barnið sitji upprétt þegar það borðar svo það ráði örugglega við að skila út úr sér mat sem vill ekki eða ræður kannski ekki við (eins og of stóran bita af banana).
Fólk sem heyrir af þessu hefur yfirleitt áhyggjur af því að maturinn standi í barninu, eðlilega. Ég gerði það líka fyrst þegar við byrjuðum. Kúgunarviðbragð ungbarna er framar en hjá fullorðnum þannig að þegar það stefnir í að barn nái ekki að kyngja bita, kúgast það og annaðhvort spýtir bitanum út eða heldur áfram að vinna á honum. Ég varð frekar stressuð þegar hann kúgaðist í fyrstu skiptin en hann náði alltaf að bjarga sér sjálfur. Í dag kúgast hann mjög sjaldan og hefur náð góðum tökum á því að tyggja. Maturinn verður þó að vera mjúkur svo tannlausir gómar geti unnið á honum og best er að hafa bita sem litlar hendur eiga auðvelt með að halda á. 
Mér fannst svo frábært að leyfa honum loksins að "leika" með mat - sem hafði nýja áferð, lykt og bragð! Skemmtilegt nýtt dót mamma! Við byrjuðum stuttu eftir að Esjar varð 6 mánaða að gefa honum mat. Ekki er mælt með því að gefa börnum að borða fyrir 6 mánaða aldur því meltingarvegurinn er ekki fullmótaður. Það þýðir samt ekki að um leið og barnið á hálfsárs afmæli að það þurfi að byrja. Stundum komu dagar sem hann fékk ekkert nema brjóstamjólk og það var allt í lagi. Smám saman sáum við að hann gat borðað meira og meira í einu samhliða því sem orkuþörfin jókst. Brjóstamjólkin heldur áfram að vera stór hluti af næringaruppsprettu ungbarna fram til um eins árs.
Í uppáhaldi hjá Esjari í dag er brokkolí, brauð með smjöri og pasta með pastasósu (Jamie Oliver pastasósan er í uppáhaldi hjá mér). Ég reyni að bjóða honum alltaf eitthvað tvennt eða þrennt í einu svo hann geti skipt á milli og borðað það sem hann er í stuði fyrir. Hann tekur alltaf eina matartegund fyrir í einu áður en hann skiptir og borðar næstu, merkilegt.
Undirbúið ykkur fyrir að þurfa að sópa/skúra gólfið reglulega og gott er að eiga nóg af þvottapokum eða tuskum og góðan ermasmekk eins og sést á myndinni fyrir neðan. Þessi fæst í Móðir, kona, meyja og finnst mér hann betri en þeir sem fást í Ikea, því teygjan um hendurnar er þrengri og helst á réttum stað.
Okkur finnst gaman að getað gefið Esjari fjölbreyttan mat, hann smakkar ýmsar kryddtegundir, kjöt og fisk en ekki bara einsleitan barnamat/graut. Hann borðar það sem við borðum og fyrir vikið borðum við betri mat. Við bjóðum honum ekki KFC!
Esjar fær að ráða hvað hann borðar mikið. Þegar hann er hættur að borða fer hann að leika sér, hendir mat frekar á gólfið eða hreinlega lætur mig vita að hann nenni þessu ekki lengur. Við setjum enga pressu á hann að borða meira en hann vill. Hér er ekkert "klára af disknum þínum". Ef við höldum að hann hafi ekki fengið nóg í einum matartíma leyfum við honum að leika sér og gefum honum svo aftur seinna.
Þegar barn er matað hefur það ekki vald yfir því hversu hratt það borðar, hvenær það hættir eða hvað það fær að borða því oftast er bara eitt í boði í einu.  Það er freistandi að athuga hvort barnið þurfi ekki eina skeið í viðbót, mögulega nokkrum skeiðum of oft. Það er líka erfitt að borða sjálfur ef önnur hendin sér um að gefa litlum munni að borða. Ef litlu hendurnar fá að spreyta sig í að koma mat upp í litla munnin geta bæði borðað á sama tíma og eytt meiri tíma í að brosa og spjalla! Við höfum samt alveg gefið honum mat með skeið en ég hugsa þá hvað það sé miklu þægilegra og skemmtilegra að leyfa honum að borða sjálfum. 
Hjá okkur er matartíminn róleg og þægileg stund þar sem við sitjum saman og borðum það sama. Ein af fáu rólegu stundunum sem maður fær með 10 mánaða fjörugan strák sem skríður á ógnarhraða um allt!
Esjar borðar AB mjólk og múslí - sjálfur
Að leyfa barni að borða sjálft hjálpar fjölskyldunni að uppfylla eitt af tengslauppeldishugtökum API: "Feed with love and respect".
Ingibjörg Baldursdóttir er BLW gúrú Íslands og býður upp á námskeið í Björkinni fyrir foreldra og börn. Á Facebook er góður stuðningshópur fyrir foreldra sem vilja kynna sér þessa aðferð og fá ráðleggingar frá öðrum foreldrum.