Góður verkfræðingur hannar góða brú. Frábær verkfræðingur spyr sig hvort nauðsynlegt sé að byggja brú - og finnur mögulega aðra leið sem uppfyllir þó allar kröfur notenda.
Þegar foreldrar hafa jafnað sig á fyrstu viðbrögðunum við "jákvæða strikinu" á þungunarprófinu vakna ýmsar spurningar og vangaveltur. Þurfum við stærra hús? Eigum við að breyta skrifstofunni í barnaherbergi? Hvernig vagn eigum við að kaupa... Hvað þurfum við að kaupa!?
- "Týpíski listinn": Vagga, barnarúm, sér herbergi, barnastól, vagn, kerru, snuð, leikteppi, ömmustól, hoppuróla, göngugrind, leikgrind, ungbarnaróla, baðbali, skiptiborð, óróa, spiladós og örvandi leikföng.
- "Léttari listinn": Vagn, mögulega skiptiborð. Til viðbótar: Burðarsjal/poka og co-sleeper (ungbarnarúm í hjónarúm).
Hvernig er hægt að hafa bara þessa fáu hluti?
Í staðinn fyrir vöggu og barnarúm notuðum við co-sleeper til að byrja með en síðan hefur Esjar sofið í rúminu okkar. Við höfum ekki auka herbergi en þó við hefðum það myndum við ekki nota það sem svefnherbergi fyrir hann. Barn og foreldrar finna til meira öryggis með nálægðinni.
Við settum ekki upp barnarúm fyrr en Esjar var orðinn rúmlega hálfs árs gamall. Þá var hann fyrst farinn að hreyfa sig eitthvað í svefni og vildum við ekki að hann rúllaði úr hjónarúminu. Við prófuðum nokkur kvöld að leggja hann í barnarúmið en hann kom svo upp í til okkar þegar við fórum að sofa eða þegar hann vaknaði. Mér fannst þetta ekkert þægilegt. Mér fannst vesen að þurfa að standa upp og bogra yfir rimlarúminu hálfsofandi til að ná í hann í myrkrinu.
Flótlega varð rúmið stoppistöð fyrir hreinan þvott á leið í skápa og skúffur. Það nýtist þó vel sem framlenging við rúmið en við höfum það í sömu hæð og okkar og ein hliðin er tekin af. Esjar sefur samt alltaf á dýnunni okkar en það virkar samt aðeins stærra svona, það rúllar allavega enginn út á gólf þeim megin.
Á tímabili sváfum við reyndar ekki vel öll saman. Ég hafði ekki nægilegt pláss til að sofa og oft vildi ég ekki færa Esjar vegna áhyggja að hann myndi vakna. Góði verkfræðingurinn myndi þá venja barnið að sofa í sínu eigin rúmi, þó foreldrunum finnist gott að hafa barnið hjá sér. Frábæri verkfræðingurinn myndi ráðleggja kaup á nýju rúmi. Við höfum keypt stærra rúm fyrir okkur síðan hann fæddist og sofum nú öll þægilega í 180 cm breiðu rúmi.
Hér er umfjöllun um öryggisatriði sem hafa ber í huga ef ungbarn á að deila rúmi með foreldrum sínum.
Vagninn notum við daglega (frá um 5 mánaða aldri) fyrir Esjar að sofa í. Flestar íslenskar og líklega skandinavískar fjölskyldur hafa sömu sögu að segja. Börn sofa svo vel úti!
Skiptiborðið reyndist vel fyrstu mánuðina þegar þurfti að skipta ansi ört um bleiur. Þá er fínt að hafa allt á vísum stað. Um leið og börnin fara að hreyfa sig meira verða aðrir staðir hentugri til bleiuskipta. Skiptiborðið er ekki nauðsynlegt en nýttist vel fyrstu mánuðina.
Í staðinn fyrir kerru er hægt að nota burðarpoka.
Í hvert skipti sem ég fór með Esjar í kerrunni, þá hugsaði ég "nú hefði verið gott að hafa burðarpokann" en aldrei öfugt. Ég notaði pokann alltaf þegar ég tók hann með mér út í búð þegar hann var orðinn of stór fyrir ungbarnasætið en ekki nógu stór fyrir barnasætið í búðarkerrunum. Núna hef ég ekki notað kerruna í viku og hef ekki í huga að taka hana fram aftur. Ég er líka orðin rosalega flink í að bera Esjar á bakinu en þegar börn verða þyngri er mun léttara að bera þau þar er framan á sér. Hann getur séð allt það sama og ég og hallað höfðinu á bakið mitt ef hann vill hvíld.
|
Við Esjar í göngutúr síðustu helgi |
Í staðinn fyrir leikteppi, ömmustól, hoppurólu, göngugrind, leikgrind, ungbarnarólu, óróa, og örvandi leikföng má nota burðarpoka.
Tilgangurinn með öllum þessum græjum er að hafa öruggan stað fyrir barnið svo foreldrar geti sinnt ýmsum verkum og til að veita barninu afþreyingu og örvun. Allt þetta hefur burðarpokinn og meira til! Barnið fær heilmikla afþreyingu af því að spjalla við foreldrana og fylgjast með því sem þau eru að gera. Það þjálfar jafnvægisskyn barnsins að vera í stöðugri hreyfingu með foreldrinu sem og það æfir sig að halda höfði en á jafnframt auðvelt með að hvíla það uppvið bringuna/bakið.
Flestum foreldrum finnst gott að halda á barninu sínu en enginn getur þó gert það allan daginn án þess að fá vöðvabólgu í axlir og bak. Góði verkfræðingurinn ráðleggur þá að venja barnið við ömmustól eða göngugrind. Foreldrarnir vildu þó gjarnan getað haft barnið nærri sér og frábæri verkfræðingurinn ráðleggur þá kaup á burðarsjali eða poka.
Með nýfætt barn er æðislegt að vera með það í teygjanlegu sjali. Þegar barnið þyngist heldur sjalið ekki nægilega vel og er þá betra að nota annaðhvort burðarpoka eða ofið sjal sem teygjist ekki. Hægt er að skoða ýmsar burðargræjur hjá Soffíu á hondihond.is.
Í staðinn fyrir baðbalann má baða barnið í sturtu eða baði með foreldrinu.
Baðbalann notuðum við tvisvar. Fyrst þegar heimaljósmóðirinn sýndi okkur hvernig á að baða nýfætt barn. Svo þegar við prófuðum að gera eins og hún hafði sýnt gekk það ansi brösulega. Fyrst var vatnið ekki nógu heitt. Svo löguðum við hitann en samt líkaði Esjari þetta ekki sérlega vel. Þá benti ein úr mömmuhópnum á að þau tækju ungann sinn með í sturtu. Við prófuðum þetta og líkaði miklu betur! Esjari leið svo vel í fanginu á mér með hlýtt vatnið streymandi yfir okkur. Þannig fengum við heilmikla húð-við-húð snertingu sem er svo mikilvæg fyrir tengslamyndun og öryggiskennd barnsins.
Við fórum mjög nálægt því að hafa fylgt týpíska listanum. Fullt af þessu dóti fyllti dýrmætt pláss í íbúðinni okkar. Nú þegar ég lít til baka notuðum við það flest ekki mikið og hefðum auðveldlega getað sleppt því. Börnin stækka svo hratt og það væri synd að hafa þau ekki sem mest hjá manni - áður en þau fara að skríða um allt og skoða heiminn!