Lykillinn að farsælli brjóstagjöf

Kæra ólétta vinkona.
Á meðgöngunni eru milljón hlutir sem veltast í höfði þér varðandi barnið og allt sem því tengist. Eitt af þeim er örugglega brjóstagjöf. Ef þú ert að lesa þetta ertu að öllum líkindum íslensk og munt því líklega vilja hafa barn þitt á brjósti þar sem hlutfall kvenna sem byrja brjóstagjöf er í kringum 99% á Íslandi *klapp á bakið íslenskar konur*. Ég vil aðeins deila með þér þeim atriðum sem eru almennt talin stuðla að farsælli brjóstagjöf og reyndist mér vel.

Númer eitt: Þekking

Að vita við hverju er að búast tel ég vera gríðarlega mikilvægt. Bíómyndarhugmyndin af brjóstagjöf þar sem konan tekur barnið nýfætt og heldur því í fangi sér meðan það gúlpar ofan í sig brjóstamjólk segir ekki alveg alla söguna. Því meira sem þú veist um eðlilegan framgang brjóstagjafar og hvar hjálp er að finna, þeim mun líklegra er að ykkur gangi vel. Ég fór á námskeið hjá Björkinni sem heitir Brjóstagjöf og umönnun nýbura. Ég er viss um að þar var grunnurinn lagður að þeirri góðu brjóstagjöf sem við Esjar höfum notið. 
Hér er bæklingur heilsugæslunnar um brjóstagjöf með fullt af góðum upplýsingum.

Númer tvö: Hugarfar

Eitt af því sem ég tók með mér heim af námskeiðinu var: Hugarfar skiptir öllu máli. Vera jákvæð og bjartsýn. Hugsa bara allan daginn: 
Þetta mun ganga vel, ég er með fullt af mjólk, við getum þetta 

Númer þrjú: Aðstoð

Ef það gengur illa eða þú ert ekki viss um að þið séuð að gera rétt  - fáðu aðstoð. Ég hringdi bjöllunni í hvert einasta skipti sem ég gaf Esjari á Hreiðrinu og bað ljósmóður að fylgjast með og leiðbeina. Ég get ekki sagt að ég hafi alltaf fengið sömu leiðbeiningarnar en þó hjálpaði heilmikið að fá þær inn og heyra hvað þær höfðu að segja. Við vorum síðan svo "heppin" að Esjar fékk gulu og við lögðumst inn í tvær nætur þegar hann var þriggja daga gamall. Þá tók á móti okkur ljósmóðir sem var brjóstagjafaráðgjafi og hún tók okkur í gegn og lagaði það sem upp á vantaði.
Brjóstagjafaráðgjafar eru starfandi á sumum heilsugæslum og svo veitir Ingibjörg ráðgjöf á einkastofu sinni í Lygnu
Komdu í hópinn Stuðningskonur við brjóstagjöf á facebook. Þar er fullt af yndislegum konum sem vilja ekkert meira en að þér gangi vel með brjóstagjöf. 

Númer fjögur: Hvíld og næring

Það er ekki að ástæðulausu að tönglast er á þessu við nýbakaðar mæður. Líkaminn á auðveldast með að framleiða mjólk ef hann fær hvíld, góða næringu og nóg af vatni. Þannig að, hvíldu þig með barninu eins og þú getur, borðaðu hollan mat og drekktu vatn þegar þú ert þyrst.

Númer fimm: Ekkert stress

Lágmarka ætti stress/streitu eins og hægt er. Nú er mismunandi hvað veldur streitu hjá fólki en nokkuð algengt er þetta týpíska daglegar áreiti; þvottur, þrif, tiltekt, krefjandi gestir ;) Mamman á því að fá frið til að liggja með tásur upp í loft og hugsa um mjólk að fossa úr brjóstunum sínum!

Gangi þér vel!



Skrifað í tilefni Brjóstagjafavikunnar á Íslandi, september 2013