Tengslauppeldi 101


Mér finnst ég vera svo heppin að hafa kynnst fræðigreininni tengslauppeldi. Ég er eflaust betri mamma fyrir vikið. Upplýstari, meðvitaðri og öruggariÉg byrjaði á því að lesa bókina Árin sem enginn man eftir Sæunni Kjartansdóttur. Vinkona mín sagðist óska þess að hún hefði lesið hana áður en hún átti sitt fyrsta barn, svo ég ákvað að gera það! Bókin er frábær og ég mæli með henni fyrir alla sem umgangast ung börn, en sérstaklega foreldra. Síðan í haust rataði ég í hóp á Facebook sem heitir Tenglsaforeldrar á Íslandi og fór þaðan á fyrirlestur um "Áhrif uppeldis á heilaþroska og persónuleika" sem Rakel Rán Sigurbjörnsdóttir fjölskylduráðgjafi hélt. Þá var ekki aftur snúið, ég varð alveg heilluð. Það var svo margt sem ég vildi óska að ég hefði vitað fyrir löngu, sérstaklega þegar ég vann á leikskólanum en er mjög ánægð að vita nú. 
Í nóvember 2012 stofnuðum við Rakel ásamt fleirum Félag fag- og áhugafólks um tengslauppeldi á Íslandi. Félagið ætlar að kynna samfélagið fyrir góðu áhrifum tengslauppeldis á einn og annan máta.
Mér hefur þó fundist erfitt að útskýra tengslauppeldi í stuttu máli á góðan máta en ætla að reyna. Í grunninn vil ég segja að það sé uppeldisstefna þar sem foreldri er meðvitaður og næmur á tilfinningar og þroska barnsins hverju sinni. Foreldri gerir raunhæfar kröfur til barnsins hvað varðar svefn, matarvenjur, getu til að vera aðskilið frá sér og fleira.
Skipta má hornsteinum tengslauppeldis upp í nokkur lykilhugtök (tekið frá Attachment Parenting International: Eight Principles of Parenting). Gaman væri að fjalla um hvert og eitt þeirra í sér færslu, kannski seinna. Öll þessi átta atriði eiga það sameiginlegt að stuðla að öruggri tengslagerð barns (sjá nánar um tengslagerðir, Wikipedia)
  1.   Undirbúningur fyrir meðgöngu, fæðingu og uppeldi
  2.   Næring með ást og virðingu
  3.    Bregðast við/svara með næmni
  4.    Hlýleg snerting
  5.    Tryggja öruggan svefn (barns), líkamlega sem og andlega
  6.    Veita skilyrðislausa og ástríka umönnun
  7.    Beita jákvæðum aga
  8.    Halda eigin jafnvægi og í fjöslkyldunni
Þau eru ekki nákvæm enda er ekki hér á ferð nein uppeldis-"handbók". Það eru engar skyldur eða reglur. Það er heldur ekki þannig að foreldrar þurfi að kynna sér þessi hugtök eða lesa helmikið efni til að nota tengslauppeldi. Þeir þurfa þó að vita aðeins aðeins meira en meðal maður um þroska barna fyrstu 3 árin og hafa öryggi til að fylgja eigin sannfæringu. Ef foreldrar eru í góðu jafnvægi og hafa sjálfir örugga tengslagerð munu þeir að mestu leyti ala börnin sín vel upp og mynda góð tengsl við þau. Séu foreldrar aftur á móti undir miklu álagi (vinna, slæm parasambönd, áhyggjufull) eða hafa óörugga tengslagerð er líklegt að það bitni á uppeldinu og seinna meir líðan og tengslagerð barnanna. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar velti fyrir sér þeim aðstæðum sem þeir vilja ala upp barn í og reyni að vinna úr vandamálum séu einhver til staðar. Hvert og eitt foreldri ætti að vera meðvitað um það uppeldi sem það sjálft hlaut (hugtak 1) og að margt frá því smitist út í þeirra eigin uppeldisaðferðir (nema þeir reyni að breyta því). Þetta ómeðvitaða "smit" er kallað uppeldisarfur.

Allra fyrstu dagarnir eftir fæðingu

Fyrstu dagana eftir að krílið er komið í heiminn er mikilvægt að hafa hlutina einfalda.

Öll einbeiting á að fara í að kynnast og tengjast barninu. Kúra, strjúka og tala blíðlega til þess. Öll snerting milli foreldra og barnsins eykur vellíðan og öryggi barnsins svo um að gera að vera sem mest hjá því.

Mamman þarf mikla hvíld, athygli og ummönun.
Best er liggja sem mest. Nefnilega, þegar nýbökuð móðir situr eða stendur eykst blóðflæðið niður í nára og veldur miklum þrýstingi á viðkvæmt svæði sem er mjög bólgið eftir fæðinguna.
Eins og það er gott að losna við þyngdina þá er ýmisleg önnur óþægindi sem koma í staðinn. Maginn er mjög laus og var mér hálf óglatt þegar ég stóð/gekk. Mér  fannst nauðsynlegt að hafa eitthvað þröngt utan um hann til að styðja við. Ég keypti mér aðhaldsbol í Hagkaup og fór ekki úr honum í nokkrar vikur!

Pabbinn hefur það hlutverk að færa henni vatnsglas (í hvert skipti sem hún gefur barninu að drekka og eftir þörfum), hjálpa henni að koma sér vel fyrir í brjóstagjöfinni (púðar), fylgjast með lyfjum sem hún er að taka (bólgueyðandi og verkjalyf), taka myndir og sjá um máltíðir.
Látið 1944 bjóða ykkur í mat eða kannski geta mamma ykkar eða pabbi eldað mat og komið með til ykkar.

Haldið gestum í algeru lágmarki, helst enga gesti fyrstu 2-3 dagana. Ef gestir koma passið að þeir stoppi ekki lengi. Þetta getur verið erfitt að neita ofurspenntum ættingjum og vinum um heimsókn en mamman er að jafna sig eftir mikið og erfitt ferli og á ekki auðvelt með að sitja eða standa lengi vegna verkja.
Þetta er ykkar stund, hinir mega alveg bíða í nokkra daga. Tilvalið er að (pabbinn) sendi myndir af krílinu til allra nánustu og skilaboð um hvenær velkomið er að hafa samband. Flestir skilja þetta mjög vel en alltaf eru sumir sem átta sig ekki á þessu.

Punktið hjá ykkur spurningar eða vangaveltur fyrir heimaljósmóðurina svo það gleymist ekki. Svo er auðvitað alltaf hægt að hringja upp á kvennadeild.
Kæra móðir, vertu viss um að brjóstagjöfin fari rétt fram. Annars er hætt við því að sár myndist og það er alls ekki þægilegt. Spurðu heimaljósuna eða hafðu samband við brjóstagjafaráðgjafa uppi á landspítala ef þú hefur einhverjar áhyggjur. Hugarfar getur haft mikil áhrif svo bjartsýni og jákvæðni eru góð lykilorð til að hafa í huga!

Ég og Esjar (eins dags gamall)

Lifið í augnablikinu, drekkið í ykkur tilfinningarnar og látið ykkur líða vel með litlu nýju ástinni ykkar.

Upphaf

Kæra vinkona,
ég er með þeim fyrstu til að eiga barn meðal vinkvenna minna og finnst mér ég hálfpartinn vera að ryðja brautina. Á síðustu átján mánuðum hef ég haft dágóðann tíma til að kynna mér margt sem tengist meðgöngu, fæðingu, brjóstagjöf, næringu og síðast en alls ekki síst, barnauppeldi. Ég hef lært svo ótal margt og heilmikið kom mér á óvart.
Eins og þekkt er vilja allir bjóða manni ráð og reynslusögur. Það sem ég hef rekið mig á er að ekki eru öll ráð góð ráð. Þó svo að einhver sé foreldri þýðir ekki að hann sé fullkominn ráðgjafi fyrir aðra foreldra. Alveg eins gildir með bækur. Þó svo að einhver geti skrifað og gefið út bók um barnauppeldi, þýðir ekki að allt sem í henni stendur séu bestu ráðleggingar sem völ er á. Börn í dag fæðast eins og börn fyrir hálfri öld en í dag er mikið meira vitað um ungbörn, svefn, næringu og heilaþroska þeirra svo eitthvað sé nefnt. Samt er þessi nýja þekking langt frá því að vera almenningi vel kunn. Þar vil ég reyna að hjálpa.
Vinkonur mínar hafa spurt mig ófárra spurninga um ýmislegt sem tengist þessu ferli og finnst mér æðislegt að geta svarað þeim. Ég fæ ósjaldan að heyra setninguna "þegar ég verð ólétt, ætla ég að hringja í þig og vil þú segir mér allt" og henni svara ég alltaf "að sjálfsögðu!". Til að ég geti komið frá mér öllu sem ég vildi ætlaði ég að reyna að skrifa þetta niður á meðan það er ferskt í reynslunni. Þá datt mér í hug að skrifa nokkur bréf, öll með yfirskriftinni "Kæra vinkona...". Þegar ég hugsaði lengra áttaði ég mig á því að mér myndi eflaust aldrei finnast vera nóg komið af bréfum. Esjar er alltaf að þroskast og ný verkefni koma upp og ég mun örugglega endalaust hafa ný ráð til að gefa. Þannig varð hugmyndin til að þessari vefsíðu.

Hér ætla ég að reyna að miðla minni reynslu og þekkingu til allra vinkvenna og kynsystra minna sem eiga eftir að ganga þessa einstöku og frábæru leið.
Verði ykkur að góðu kæru vinkonur, gamlar og nýjar!
Þórhildur